151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

tekjustofnar sveitarfélaga.

[10:54]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Það væri mjög áhugavert að taka hér málefnalega umræðu um stöðu sveitarfélaganna og nauðsynlegt. En nálgun hv. þingmanns er auðvitað mjög ómálefnaleg þegar hann segir að það sé stefna ríkisstjórnarinnar sem stefni sveitarfélögunum í einhvern vanda, þegar allir vita við hvað menn eru að fást við í þessu samfélagi, sem er heimsfaraldur, Covid. Það er alveg hægt að taka hér málefnalega umræðu um hvernig íslenska sveitarstjórnarstigið er byggt upp, á sjálfstæðum tekjustofnum, það var gert hér í fyrra svari í dag, og hversu ólíkt það er því sem til að mynda gerist annars staðar á Norðurlöndum. Hv. þingmaður fullyrti að hér væru öll sveitarfélög vel rekin. Það er einfaldlega hægt að fara í gegnum töfluna, en hópur sem var að störfum í allt sumar setti fram líkan, og það er augljóst að sveitarfélögin standa mjög misjafnlega. Það er augljóst af þeim lestri að sum sveitarfélög gætu staðið sig mun betur og jafnvel stærsta sveitarfélag landsins sem ætti þó að hafa mestu hagræðingarmöguleikana í krafti stærðar. Margt bendir til þess að ef það sveitarfélag eitt og sér þurfi að treysta á byggingarréttartekjur til þess að vera í plús þá sé eitthvað verulega að í þeim rekstri. Mér finnst þessar fullyrðingar hv. þingmanns ganga býsna langt.

Það er hins vegar allt önnur umræða að taka hér málefnalega umræðu um það hvernig við getum aukið opinberar fjárfestingar. Það gætum við gert í þinginu. Við gætum aukið þær og að því hefur ríkisstjórnin stefnt. Ég veit að slíkur áhugi er til staðar, ég heyri það alla vega hjá einstökum þingmönnum fjárlaganefndar. Það mætti líka velta fyrir sér hvort við getum nálgast það að taka umræðu um það, af því að sveitarstjórnarstigið er eins og það er, hvort ríkið eigi að koma þar að í einhverri opinberri fjárfestingu og búa til einhvern slíkan fjárfestingarsjóð. (Forseti hringir.) Við ættum að skoða slíka hluti til að hvetja til fjárfestinga sveitarfélaganna. Hér hefur verið rætt um að þau geti ekki nálgast lánsfé. (Forseti hringir.) Það eru 75 milljarðar í Lánasjóði sveitarfélaga á mjög góðum kjörum sem sveitarfélögin geta sótt í en sækja ekki í.