151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

tímabinding veiðiheimilda til 20 ára o.fl.

37. mál
[15:14]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu þingflokks Viðreisnar sem ber heitið, eins og forseti fór yfir, Tillaga til þingsályktunar um tímabindingu veiðiheimilda til 20 ára. Hér í þessum þingsal hefur fólk ekki verið einnar skoðunar um fiskveiðikerfið okkar. En það er þó sitthvað býsna mikilvægt sem sameinar okkur. Við viljum að sjávarútvegurinn sé arðbær atvinnugrein sem skili þjóðarbúinu og samfélögum um allt land tekjum. Við viljum standa vörð um auðlindina með því að nýta hana með sjálfbærum hætti og við viljum öll að sátt ríki um þann lagaramma sem greinin starfar eftir. Aðra þætti er tekist meira á um: Að gjaldið sem greitt er fyrir aðgang að auðlindinni sé í samræmi við arðsemi hennar. Að rétturinn til að nýta auðlindina sé tímabundinn en ekki varanlegur, og að einstaklingar og fyrirtæki geti ekki slegið eign sinni á það sem með réttu skal teljast sameign íslensku þjóðarinnar.

Árin 2000, 2010 og 2017 störfuðu þverpólitískar nefndir við að finna umgjörð utan um fiskveiðikerfið sem almenn og víðtæk sátt geti ríkt um. Niðurstöður tveggja fyrrnefndu nefndanna voru á svipaðan veg, en þriðja nefndin, sú sem ég sat í árið 2017, lauk aldrei störfum. Í henni var þó mikill meiri hluti fyrir því sama og hinar tvær nefndirnar höfðu skilað frá sér, að nýtingarréttur yfir auðlindum hafsins skyldi ekki vera varanlegur.

Með þessari tillögu sem ég mæli fyrir hér, leitumst við í þingflokki Viðreisnar enn eina ferðina við að ná fram þeim breytingum sem þverpólitískt samstarf og meiri hluti þjóðarinnar hefur kallað eftir, sem meiri hluti þingsins getur vonandi stutt.

Tillagan er þríþætt. Í fyrsta lagi snýst hún um að fyrirkomulagi úthlutunar aflahlutdeilda verði breytt á þann veg að rétturinn til veiða á 5% heildarafla verði boðinn upp á hverju ári. Þannig fá kvótahafar 95% þess kvóta sem þeir eiga fyrir, úthlutað á hverju ári endurgjaldslaust, en restin verði boðin upp til 20 ára í senn. Með þessu móti ræðst afgjald ríkisins af aðstæðum á markaði. Þegar vel árar bjóða menn hátt, annars lægra. Allir fylgja sömu reglum, sama hver kaupandinn er. Þessi leið sameinar ýmsa kosti sem nauðsynlegt er að uppfylla, að mínu mati. Markaðurinn sér um að greitt sé hóflegt gjald fyrir aðgang að auðlindinni. Allir eru jafnir fyrir kerfinu og öllum er heimill aðgangur að uppboðinu sem uppfylla á annað borð þau skilyrði að geta gert út á Íslandsmiðum.

Ég nefndi að tillagan væri þríþætt. Í öðru lagi felur hún í sér, tengt þessu, að lög um veiðigjöld verði felld brott. Afgjald sem miðast við bókhaldslegan hagnað fyrirtækja er í eðli sínu afar ógagnsæ lausn. Með tilkomu uppboðsmarkaðar með aflahlutdeild hverfur þörfin fyrir sérstaka gjaldtöku á sjávarútveginn, gjaldtöku sem byggir á ógegnsæjum útreikningum, og er háð því hvernig vindar stjórnmálanna blása hverju sinni. Með öðrum orðum, greinin yrði laus undan því að stjórnvöld ákveði einn daginn að hækka veiðigjöld verulega og þjóðin er laus undan því að stjórnmálamenn ákveði einn daginn að lækka gjöldin verulega.

Í þriðja lagi gerir sú tillaga sem hér er rædd ráð fyrir því að ráðherra setji á fót sérstakan uppbyggingarsjóð sem hluti tekna ríkissjóðs af uppboði kvótans rennur í og hefur það hlutverk að efla byggð utan höfuðborgarsvæðisins. Þannig er hægt að ná því markmiði að byggðir landsins sem standa að baki verðmætasköpun sjávarútvegsins og íbúar þeirra njóti ágóðans af verðmætasköpuninni. Sveitarfélög og byggðir hefðu aðkomu að því að stýra hvernig fjármunum er forgangsraðað í fjárfestingu í innviðum þeirra. Með þessu fæst aukið fjármagn til uppbyggingar í vegakerfinu og fjarskiptakerfum og við getum unnið ákveðið að því markmiði okkar að styrkja og stækka atvinnusvæðin á landsbyggðinni.

Hvers vegna er þessi tillaga jafn mikilvæg og okkur í Viðreisn þykir hún vera? Til að byrja með má svara þeirri spurningu með því að benda á að gífurleg óvissa fylgir núverandi kerfi, bæði pólitísk óvissa og lagaleg. Sú óvissa er til þess fallin að draga úr virði aflahlutdeildar og framleiðni greinarinnar, og á sama tíma stefna framtíðareignarrétti þjóðarinnar yfir auðlindinni í tvísýnu. Lagalega óvissan snýst nefnilega, eins og við þekkjum velflest, að eignarréttarlegri stöðu veiðiheimilda. Um þá stöðu hafa verið skrifaðar lærðar greinar og hafa fræðimenn komist að ólíkum niðurstöðum. Sú kenning sem virðist algengust er að með kvótakerfinu hafi verið komið á rétti sem er nokkurs konar blanda beinna eignarréttinda, afnotaréttinda og atvinnuréttinda og nýtur verndar eignarréttarákvæðis stjórnskrárinnar. Á þeim grundvelli er ekki hægt að afnema kvótakerfið nema fullar bætur komi fyrir, þrátt fyrir að ákvæði 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, þar sem kveðið er á um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar og að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði yfir veiðiheimildum. Þessari lagalegu óvissu verðum við að eyða.

Það sama á við þá pólitísku óvissu sem ég lýsti áðan og sífelldur styr stendur um varðandi gjaldtöku atvinnugreinarinnar. Fátt er mikilvægara en að gjaldtaka endurspegli verðmæti sjávarútvegsins án þess að hún dragi verulega úr arðsemi hans. Því að þrátt fyrir óvissuna er arðsemi sjávarútvegsfyrirtækja talsvert meiri en almennt gerist í atvinnulífinu. Uppboð aflaheimilda er til þess fallið að tryggja sem mest samræmi á milli arðsemi greinarinnar og ábata íslensku þjóðarinnar af henni. Almennir markaðir, þar sem verðmyndun ræðst af framboði og eftirspurn, blómstra. Það sama gildir ekki þegar verð er ákveðið af nefnd embættismanna eða með lagasetningu hér í þingsal. Slíkar ráðstafanir takmarka verðmætasköpun og hygla yfirleitt fáum á kostnað heildar. Hvers vegna ætti aðgangur að fiskveiðiauðlindinni að vera verðlagðar með þeim hætti? Hvers vegna ætti þjóðin ekki að njóta ágóða af auðlind sinni eftir lögmálum framboðs og eftirspurnar?

Síðan getur fólk spurt: Hvers vegna tímabinding til 20 ára? Mörgum finnst þetta of stutt, útgerð er dýr og fyrirtækin þurfa fyrirsjáanleika í fjárfestingum. Svarið við því er að fyrirkomulagið sem hér er lagt til veitir langtum meiri fyrirsjáanleika en núverandi kerfi veiðigjalda, sem hægt er að breyta með pennastriki, og hefur reyndar verið gert ítrekað. Svo eru aðrir sem segja að þessi tímabinding sé allt of löng, hún ætti að vera fimm ár í senn, eða jafnvel bara eitt ár. Og stutta svarið við því er þá: Ja, útgerð er dýr og fyrirtækin þurfa fyrirsjáanleika í fjárfestingum sínum.

Við erum ekki að leggja til að kollvarpa kvótakerfinu. Við viljum styðja áfram við áframhaldandi arðsemi og uppbyggingu atvinnugreinarinnar og við viljum vernda auðlindina sjálfa fyrir ofveiði. Það hefur tekist vel með kvótakerfinu. Við erum að leita leiða til að bæta það og skapa sátt og stöðugleika sem kallað hefur verið eftir í áratugi. Við getum líka búist við því að aflaheimild sem seld er til 20 ára sé verðmætari á hvert kíló en heimildir til árs í senn sem boðnar eru út 20 ár í röð. Þannig hámörkum við arð þjóðarinnar af auðlindinni. Þannig vinnum við heildstætt og í sátt að framförum sjávarútvegsins og sameign þjóðarinnar yfir fiskinum í sjónum.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu og óska eftir því að málinu verði vísað til þinglegrar meðferðar í atvinnuveganefnd. Ég veit að þar mun fara fram fagleg umfjöllun um málið þar sem aðilar máls munu fá tækifæri til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og ég hlakka til. Ég bind vonir við og hlakka til að fá málið aftur til umræðu og afgreiðslu í þingsal eftir umfjöllun nefndar.