154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

rekstur og aðbúnaður Landhelgisgæslunnar.

[10:54]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Fólk vill öryggi en upplifir víða öryggisleysi þegar kemur að heilbrigðisþjónustu. Fyrir utan höfuðborgarsvæðið eru það ekki síst sjúkraflutningar sem brenna á fólki. Við í Samfylkingunni kynntum útspil í heilbrigðismálum í síðustu viku og leggjum þar m.a. til að björgunar- og sjúkraþyrla verði staðsett utan höfuðborgarsvæðis til að stytta viðbragðstíma. Talsvert hefur verið rætt um aðkomu Landhelgisgæslunnar í því samhengi og þá að þyrlan væri staðsett á Norðausturlandi. Til að styrkja sjúkraflug á Vesturlandiog Suðurlandi þyrfti jafnframt að bæta við áhöfn hér í bænum. Af lestri fjárlagafrumvarps þessarar ríkisstjórnar er ljóst að þetta er fjarlægur draumur. Rekstur Landhelgisgæslunnar er í járnum og miðað við núverandi upplegg er gert ráð fyrir niðurskurði sem er ígildi 19 stöðugilda hjá Gæslunni. Landhelgisgæslan er ekki undanþegin 2% aðhaldskröfu og hefur þetta árlega aðhald hægt en örugglega klipið allt sem hægt er að klípa af Landhelgisgæslunni, sem á að vera okkar þjóðarstolt, lykilstofnun í almannaöryggi. Aðbúnaður Landhelgisgæslunnar er í engu samræmi við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar þrátt fyrir veigamikið hlutverk hennar við að tryggja öryggi fyrir íbúa eyríkis. Nú birtist okkur í fjárlaganefnd svipaður vandi og í tilviki Fangelsismálastofnunar í fyrra; augljós vanfjármögnun hjá lykilstofnun á sviði almannaöryggis á Íslandi.

Forseti. En þetta eru kannski ekki nýjar fréttir. Síðasta vetur átti að selja TF-SIF til að standa undir rekstri Landhelgisgæslunnar og skýringin var að vélin væri ekki vel nýtt enda fengist takmarkað fjármagn í rekstur. Ég vil því spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Telur hún ásættanlegt að vegið sé að almannaöryggi með þeim hætti sem hér birtist í fjárframlögum til Landhelgisgæslunnar? Er styrking sjúkraflutninga með þyrlu og fjölgun áhafna í uppnámi vegna rekstrarstöðunnar? Og er eðlilegt að nú dynji 2% aðhaldskrafa á Landhelgisgæslunni eftir áralanga vanfjármögnun?