154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Rekstur og aðbúnaður Landhelgisgæslunnar.

[10:57]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og sömuleiðis vil ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á að því ég tel afar alvarlegri stöðu Landhelgisgæslu Íslands. Það er ljóst, enda situr hv. þingmaður í fjárlaganefnd. Ég kom fyrir fjárlaganefnd í gær þar sem við ræddum m.a. stöðu Landhelgisgæslu Íslands og þann hallarekstur sem þar er. Hallarekstur ársins 2022 og 2023 stefnir í að verða um 600 millj. kr. Nú er ég búin að vera í þessu embætti í rúma þrjá mánuði. Einhverjir kunna að segja að það sé hægt að ná fram hagkvæmari rekstri og spara meira hjá Landhelgisgæslunni. Ég er þeirrar skoðunar að Landhelgisgæslan sé búin að gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að ná aukinni hagræðingu og þess vegna hefur hún m.a. verið að kaupa olíu í Færeyjum. Ég hef sömuleiðis haft áhyggjur af því að Landhelgisgæslan, sem sinnir leit og björgun og er ígildi löggæslu í landinu, búi við aðhaldskröfu en sé ekki undanþegin henni eins og lögreglan er. Þess vegna lagði ég það til við fjárlaganefnd í gær að Landhelgisgæsla Íslands yrði undanþegin aðhaldskröfunni. Við viljum öll, Íslendingar, eiga öfluga Landhelgisgæslu og þá þurfum við líka öll að sammælast um það að hún geti staðið undir hlutverki sínu og ábyrgð sem er fyrst og síðast leit og björgun.