154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

bann við fiskeldi í opnum sjókvíum.

5. mál
[11:36]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þessa spurningu og ég tek það fram að ég fagna þeirri vinnu sem er í gangi í ráðuneytinu, mér finnst það bara frábært. En af því að hv. þingmaður talar um að hún hafi kallað eftir afstöðu þingmanna til þessarar greinar áður þá man ég eftir að ég stóð hérna í pontu árið 2018 þegar það átti að fara að hunsa umhverfismat og gefa bráðabirgðaleyfi til að halda áfram starfsemi á Vestfjörðum þrátt fyrir að brotin hefðu verið lög, minnir mig, eða það stóðst ekki umhverfismat á þeim tíma, þá stóð ég hér upp og sagði: Eigum við ekki bara að hætta þessu, eigum við ekki bara að loka á þetta sjókvíaeldi? Þetta hefur verið afstaða mín lengi. Ég hef fylgst með þessu og ég held þjóðin öll. Við erum búin að gefa þessu tækifæri.

Hv. þingmaður talar um að stoppa og banna einhverja atvinnustarfsemi sem búið er að fjárfesta miklum pening í. Við tökum ákvarðanir hér sem löggjafi og lagaverkið okkar nær yfir einstaklinga í samfélaginu sem brjóta af sér, fólk getur verið búið að fjárfesta gríðarlega miklum pening í eitthvað en það brýtur af sér og þarf þá að greiða fyrir það, hvort sem það er með því að sitja í fangelsi eða greiða sektir eða annað. Það sama á að eiga við um svona fyrirtæki. Þetta kemur ekkert bara upp úr þurru. Hérna er iðnaður þar sem menn eru trekk í trekk búnir að sýna fram á að þeir geta ekki varið náttúruna. Þeir geta ekki varið villta laxinn og þeir geta ekki komið í veg fyrir mengun og stórskaða á vistkerfinu okkar til framtíðar. Það eru óafturkræfar afleiðingar af þessari starfsemi. Ef þeir geta það ekki þá ber okkur sem löggjafa að segja bara: Nei, þetta er ekki að ganga upp. Hverjum ætlum við að leyfa njóta vafans? Eru það þessi stórfyrirtæki sem eru jú búin að fjárfesta fullt af peningum eða er það náttúran til framtíðar? Ætlum við að taka þá áhættu að villti laxastofninn deyi út, (Forseti hringir.) að við mengum og gerum óafturkræfar breytingar á náttúrunni og vistkerfinu? Út af hverju? Af því að einhver stórfyrirtæki eru búin að fjárfesta einhverjum peningum í atvinnuveg sem gengur ekki?