154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

bann við fiskeldi í opnum sjókvíum.

5. mál
[11:51]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Forseti. Mig langar að tala aðeins um þennan fisk sem eldislax er. Fiskur er prýðismatvæli og hefur haldið lífinu í Íslendingum býsna lengi en eldislax er einhvern veginn eins og lélegt ljósrit. Þarna erum við að nota gríðarlega mikið af alls konar matvælum, öðrum fisktegundum, til að búa til fóður fyrir eldislax sem skilar margfalt minni nýtni á þeim matvælum sem við höfum úr að ráða. Við þurfum að nota miklu meira af öðrum fisktegundum eins og makríl til að búa til fóður fyrir laxinn. Það sem skilar sér er margfalt minna af matvælum en við leggjum inn í þetta ferli. Það er bara alveg skelfilega óumhverfisvænt að ganga þannig um matvæli. Ég held að síðan þurfi líka að taka inn í þessa mynd hversu ógeðfellt það er, eins og hv. þm. Halldóra Mogensen vísaði til, þegar sjálfdauðum laxi er ryksugað með og öllu slengt saman einhvern veginn. Þetta er ekkert sérstakt. Síðan til þess að telja okkur trú um það, þegar við fáum okkur eldislax, að við séum einmitt að borða lax þarf í mörgum tilfellum að nota litarefni til þess að laxinn sem úr þessu kemur líti út eins og raunverulegur lax. Þetta er allt einhvern veginn frekar óskynsamlegt.

Til viðbótar horfum við á, eins og var vísað til í ræðu hv. þm. Halldóru Mogensen, að upprunagreining bendir til þess að þá þegar á árunum 2014–2019 hafi verið orðin töluverð erfðablöndun þegar eldið nam 6.900 tonnum. Í dag er eldið 150.000 tonn. Þetta er ekki margföldun, þetta er veldisvöxtur. 70 milljónir eldislaxa eru mjög mikið af fiski samanborið við íslenska laxastofninn sem er svo miklu minni, eða u.þ.b. 50.000 fiskar. Það er alveg ljóst að íslenska laxinum stafar mikil hætta af því sé þessi fiskur að sleppa og ganga upp í ár. Það hefur einnig komið í ljós að þessi svokallaði geldfiskur sem á ekki að verða kynþroska verður það bara samt. Þegar hann er sloppinn upp í árnar er ógerningur að ná honum. Greiningarnar sýna fram á þetta, bæði sýnir upprunagreining fram á að þessi lax er að sleppa úr ákveðnum kvíum og samanborið við önnur svæði er Kyrrahafslax víða útdauður eða í útrýmingarhættu.

En þetta er ekki það eina. Við erum líka að horfa á gríðarlega alvarleg dýravelferðarmál þegar laxalús gengur í kvíunum og sjáum fiska sem eru stórskaddaðir og eiginlega bara skugginn af því sem er fiskur. Þetta er einhvern veginn eitthvað annað. Meðferðirnar við þessu eru bæði skaðlegar fyrir fiskana og nærumhverfið og geta jafnvel verið skaðlegar fyrir fólkið sem neytir síðan þessa fisks. Það er því einhvern veginn allt á hvolfi í þessu. Við þurfum að hafa í huga hvaða áhrif þessi rekstur hefur á lífríkið í fjörðunum þar sem þetta er rekið. Við höfum býsna mörg dæmi um að hann hafi farið ansi illa með firði.

Þegar kemur að byggðaþróun er líka rétt að hafa í huga að í þessari þingsályktunartillögu er einmitt talað um að það þurfi að efla nýsköpun og fjölbreytt og umhverfisvæn atvinnutækifæri. Þetta er algjört lykilatriði, vegna þess að við hljótum frekar að vilja auka fjölbreytnina. Störfum í fiskeldi svipar kannski svolítið til annarra starfa á þessum svæðum. Þess vegna færi margfalt betur á því ef við myndum fara í nýsköpun og búa til ný og öðruvísi tækifæri, fjölbreyttara mannlíf. Það mælir allt með því að hafa þetta í huga og skoða það mjög vel hversu jákvætt þetta gæti verið fyrir þau byggðarlög sem eru farin að reiða sig á fiskeldið.

Það er sannarlega sjónarmið að mörg hafi atvinnu af því að starfa í fiskeldi. Það má hins vegar ekki gleyma því að tilgangurinn helgar ekki meðalið, það er svo margt annað undir. Það sem myndi gerast ef íslenski laxinn hyrfi í þeirri mynd sem hann er nú væri stór skaði. Það væri stór skaði fyrir ímynd landsins. Það væri stór skaði fyrir það fólk sem stundar útivist og jafnvel fiskveiðar að þessi stofn myndi hverfa eða breytast að verulegu leyti, sem stór hætta er á miðað við reynsluna annars staðar frá. Því verðum við að hafa þetta í huga og verðum að bregðast við núna. Við getum ekki beðið eftir því að skaðinn verði því að hann verður varanlegur. Skaðinn sem verður af þessum völdum er varanlegur.