154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

bann við fiskeldi í opnum sjókvíum.

5. mál
[11:59]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Sjókvíaeldi er risastór atvinnugrein. Hún veltir tugum milljarða, þetta eru hundruð starfa. Það hefur verið mikil lyftistöng fyrir Vestfirði og Austfirði og gert mikið fyrir brothættar byggðir. Ég get ekki stutt þá afdráttarlausu kröfu að sjókvíaeldinu verði bara lokað, einn, tveir og þrír. Ég tel það ekki raunhæft, ekki skynsamlegt og þess vegna er mitt nafn ekki á þessari þingsályktunartillögu þótt ég sé sammála mörgu af því sem kemur fram í greinargerð hennar. Það er hins vegar ekki þar með sagt, virðulegi forseti, að það sé forsvaranlegt og að við getum horft bara þegjandi upp á það að hér séu framin stórkostleg umhverfisspjöll, að villtu laxastofnunum okkar sé stefnt í voða og það verði hérna á Íslandi með nokkurra ára millibili meiri háttar umhverfisslys þar sem eldislaxar sleppa í þúsundatali, tugþúsundatali jafnvel, með hörmulegum afleiðingum fyrir vistkerfi og lífríki.

Fiskeldisfyrirtækin verða að gyrða sig í brók. Stjórnvöld og eftirlitsaðilar þurfa að gyrða sig í brók. Það þarf að herða á kröfunum sem eru gerðar til fyrirtækjanna. Það þarf að stórauka eftirlit og þyngja viðurlög. Atvinnuuppbyggingin verður líka að vera á forsendum íbúanna sjálfra. Það er t.d. ótækt, svo við tökum bara málefni Seyðisfjarðar, að þar sé vaðið áfram með áform um sjókvíaeldi þvert á vilja fólksins sem býr þar. Svo þarf auðvitað að skattleggja þessa starfsemi almennilega. Ísland á ekki að vera einhvers konar skatta- og regluverksparadís fyrir norsk laxeldisfyrirtæki og norska fjárfesta sem snúa sér hingað þegar ríkisstjórn jafnaðarmanna í Noregi innleiðir réttlát auðlindagjöld. Það gengur ekki.

Nú liggur fyrir svört skýrsla frá Ríkisendurskoðun. Þar er varpað ljósi á brotakennda og veika stjórnsýslu og umgjörð um sjókvíaeldið, hvernig þetta eftirlit og þessi umgjörð hefur ekki haldið í við vöxt greinarinnar. Þetta hefur gerst á vakt þessara stjórnarflokka þriggja. Þetta er óásættanleg þróun. Löggjafinn verður að bregðast mjög hratt við þeim ábendingum sem koma fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Í grunninn ætti prinsippið að vera frekar einfalt; regluverkið, hvatarnir og viðurlögin eiga bara að vera með þeim hætti að það borgi sig aldrei að standa í þessum rekstri nema hlutirnir séu í lagi og vistkerfisáhrifin séu lágmörkuð með besta mögulega búnaði og tækni og innra eftirliti.

Ég er sammála flutningsmönnum að því leytinu til að status quo er ekki í boði. Áframhaldandi stjórnleysi og tilraunastarfsemi með lífríkið er ekki í boði. Í þessu samhengi vil ég segja að mér brá svolítið þegar ég las í fjölmiðlum að í stefnumörkun stjórnvalda í lagareldi væri lagt upp með að ef ekki næðist árangur í viðureign við slysasleppingar að fimm árum liðnum þá þyrfti að herða stefnumörkunina og skikka laxeldisfyrirtækin til að taka upp nýja tækni. Það er haft eftir hæstv. matvælaráðherra í Heimildinni, haft eftir henni á blaðamannafundi sem var haldinn í ráðuneytinu:

„Árið 2028 er fyrsta varðan á leiðinni. Við ætlumst til þess að greinin hafi náð verulegum árangri á ýmsum sviðum árið 2028.“ Svo er haft eftir ráðuneytisstjóranum í sömu frétt:

„Við erum með þetta tímamark, 2028, þar sem við munum taka stöðu og ákveða hvort grípa þurfi til einhverra harðari aðgerða sem fela þá í sér innleiðingu á einhvers konar tækni sem nær þá þessum markmiðum okkar.“

Þar á hann við markmið um sjálfbærni og að verja lífríkið árið 2028. Ég hélt að ég væri að misskilja eitthvað þar til ég las það sem kemur fram í stefnunni sjálfri, stefnu hæstv. matvælaráðherra, um lagareldi til ársins 2040. Þar segir, með leyfi forseta:

„[E]igi síðar en árið 2028 verði lögð skylda á rekstraraðila að hafa tekið í notkun búnað sem tryggi að þau markmið sem lagt er upp með í stefnumótuninni nái örugglega fram að ganga. Í því sambandi verði horft til árangurs þeirra rekstraraðila hérlendis sem bestum árangri hafa náð, sem og til framfara í rekstri erlendis. Uppfylli rekstraraðilar ekki kröfur um þennan búnað verði þeir eftir atvikum sviptir leyfum til áframhaldandi rekstrar eða leyfi þeirra ekki endurnýjuð.“

Þetta er auðvitað ekki mikill metnaður hérna. Ráðherra og ráðuneytisstjóri tala á þá leið að miðað verði við 2028 í þessu samhengi. Þetta er auðvitað óboðlegt. Við þurfum að grípa til aðgerða strax. Við þurfum að herða á kröfunum strax. Þetta eru stór og stöndug fyrirtæki sem mega alveg við því að fjárfesta miklu fyrr í bestu mögulegu tækni til að hindra laxastrok og til að lágmarka vistkerfisáhrif. Ég á erfitt með að sjá að það geti verið réttlætanlegt að gefa út fleiri leyfi til sjókvíaeldis meðan slíkar kröfur hafa ekki verið settar. Við getum ekki haldið áfram einhverri tilraunastarfsemi hérna í fimm ár. Við þurfum að herða á kröfunum og eftirlitinu strax og það er líka alger lykilforsenda þess að það geti náðst einhver lágmarkssátt um þessa atvinnugrein.