154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

bann við fiskeldi í opnum sjókvíum.

5. mál
[12:06]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Opið sjókvíaeldi við strendur Íslands er tímaskekkja. Opið sjókvíaeldi er að skapa þá áhættu að íslenski laxastofninn og vistkerfi hans muni hreinlega hrynja og hverfa. Það er hægt að tala fallega um að það þurfi meira eftirlit, ég tala nú ekki um, eins og hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson benti á, að eftir fimm ár sé hægt að vera með þessa starfsemi í gangi án þess að hún hafi of mikil áhrif á umhverfið. En við erum þegar búin að sjá að þúsundir, ef ekki tugþúsundir laxa úr þessum sjókvíum hafa verið að sleppa og fara upp í íslenskar laxveiðiár þar sem m.a. kynþroska eldislaxar eru farnir að trufla hrygningar. Þetta er eitthvað sem má alls ekki gerast. Þetta er eitthvað sem okkur var sagt að myndi aldrei gerast. Okkur var sagt að það væri gott eftirlit þangað til Ríkisendurskoðun sagði okkur annað. Okkur var sagt að það væri ekkert verið að sleppa þangað til við sáum að það er verið að sleppa út um allt. Þetta opna sjókvíaeldi er einfaldlega þannig að það er ekki hægt að tryggja það við þær aðstæður sem eru hér við Ísland að fiskar sleppi ekki. Ef við ætlum ekki að leggja í hættu afkomu þeirra 2.000 fjölskyldna sem eiga land að laxveiðiám, ef við ætlum ekki að eyðileggja störf þeirra þúsunda sem starfa við laxveiðar á Íslandi — fólk sem kemur frá öllum heiminum til Íslands til að veiða villta íslenska Atlantshafslaxinn í ám á Íslandi og borgar fyrir það stórfé, þetta fólk er ekki að fara að koma hingað til að veiða lúsétinn og illa farinn eldislax úr þeim ám. Ætlum við að stofna atvinnu allra þessara í hættu?

Já, sjókvíaeldið var sett upp á Vestfjörðum og Austfjörðum til þess að hjálpa til við atvinnusköpun en við þurfum að átta okkur á því að þær ákvarðanir sem voru teknar á sínum tíma voru ekki teknar með þær upplýsingar í höndunum sem við erum með núna um þá áhættu sem slík atvinnustarfsemi skapar fyrir lífríki Íslands. Við þurfum því að fara í þá vinnu að stöðva allt sjókvíaeldi við strendur Íslands og fara samtímis í þá vinnu að tryggja atvinnu fyrir fólk á þeim svæðum þar sem sjókvíaeldi er núna. Við áttum okkur á því að það mun hafa áhrif í þessum byggðarlögum en við teljum að með því að fara í skipulagðar mótvægisaðgerðir með heimafólki til að skapa önnur tækifæri sem ekki stefna lífríkinu í hættu þá sé hægt að búa til fleiri valkosti. En nei, þetta má ekki segja hér inni vegna þess að hagsmunaaðilarnir eru búnir að tryggja að það hljóti nú að vera best að hafa bara meira eftirlit.

En við þurfum að byrja núna. Hæstv. matvælaráðherra hefur tilkynnt ný heildarlög um lagareldi. Þau eiga ekki að koma fram fyrr en á vormánuðum sem þýðir einfaldlega, miðað við það hvernig pólitíkin skipast hér innan húss, að þau munu aldrei fara í gegn vegna þess að ákveðnir aðilar sem vilja tala máli hagsmunaaðilanna munu þæfa það mál hér í þinginu. Þannig að í fyrsta lagi erum við kannski að fara að ræða þetta aftur næsta haust, eftir ár, og þá kannski verður þetta að lögum 2025. Lífríki sjávar, íslenski laxinn og þær mörgu fjölskyldur sem hafa ágóða af því að hér séu laxveiðar geta ekki beðið svo lengi. Þær geta heldur ekki beðið eftir þeim reglum sem verða settar með því frumvarpi sem hæstv. matvælaráðherra hefur kynnt, eftir að fimm ára tímabil af prufum verður búið. Nei, ef við bíðum svo lengi munum við sennilega sjá algjört hrun íslenska laxastofnsins. Hér er mikilvægt að Alþingi hlusti á vilja þjóðarinnar, hlusti á umhverfið, hlusti á náttúruna og framkvæmi strax, því að ef við bíðum og bíðum þá munu engir villtir laxar verða í íslenskum ám.