154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:01]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Kannski fyrst það sem ég kom ekki að áðan. Nú ætlum við að vinna þetta áfram og ég vil bara lýsa því að ég er mjög reiðubúin til að eiga samtal við t.d. velferðarnefnd Alþingis um niðurstöður þessara áfangaskýrslna sem er von á til þess að þessu samtali ljúki ekki hér í dag í einni umræðu um skýrslu heldur að við eigum áframhaldandi samtal um mögulegar aðgerðir gegn fátækt.

Ég kem þá að spurningu þingmannsins sem er vissulega stór en auðvitað hlýt ég að segja: Auðvitað trúi ég því að hægt sé að uppræta fátækt. Af hverju trúi ég því? Þegar ég horfi á alþjóðlegan samanburð þá sé ég að ástandið getur verið svo ótrúlega ólíkt milli landa og um leið að aðgerðir hafa skilað árangri. Það gefur manni auðvitað þá trú að við getum upprætt fátækt. Auðvitað er svo alltaf hægt að flækjast í umræður um hvernig við mælum fátækt og hvaða skilgreiningar við erum að nota. En draga úr fátækt, já, það eru áfangarnir á leiðinni en lokamarkmiðið hlýtur alltaf að vera að uppræta fátækt.