154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:05]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Mig langaði að koma aðeins að seinni spurningunni, sem varðaði heilsu kvenna, og þakka hv. þingmanni fyrir að hafa komið inn á það. Ég held að þetta skipti ofboðslega miklu máli. Þegar ég var í starfshópi hæstv. forsætisráðherra um að þróa velsældarvísa kom mér svakalega á óvart þegar við horfðum annars vegar á lífslíkur á Íslandi, og við vitum að við Íslendingar höfum miklar lífslíkur og sérstaklega konur, og hins vegar á mælingu um líf við góða heilsu. Við sáum það skýrt í hruninu að konur mátu sem svo að heilbrigði þeirra væri verra. Karlar fóru reyndar upp sem var svolítið skrýtið. Maður veltir fyrir sér: Er það vegna þess að þá jókst atvinnuleysi, yfirvinna minnkaði og fólk fór að slaka aðeins á en konurnar tóku svo mikla ábyrgð á heimilinu? Við vitum ekki alveg hvað það var. Þetta er uggvænleg staða og þess vegna held ég að þetta sé mjög mikilvægt. Alltaf þegar við horfum á þessa velsældarvísa horfum við líka á kynin og á tekjudreifingu. Það er það sem við eigum að gera og finna aðgerðir sem beinast nákvæmlega að þeim hópi. Það var hugmyndafræðin á bak við velsældarvísa. Hvernig getum við reynt sem best að greina hið raunverulega vandamál og finna lausnir á því? Þannig þurfum við að vinna þetta.

(Forseti hringir.) Varðandi skerðingarnar, þá er það örugglega einhvers staðar sem má bæta úr. Þær þurfa engu að síður að vera til. Þegar við ræðum fátækt, og horfum á þá sem eru undir miðgildi launa, verðum við að átta okkur á því að því verður aldrei útrýmt nema allir verði með jöfn laun.