154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:20]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu sem fram fer hér í dag, þakka hv. þm. Halldóru Mogensen og öðrum þeim sem fluttu tillögu um að þessi skýrsla yrði gerð fyrir framtakið og þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að flytja okkur þessa skýrslu sem er efnismikil og góð. Það er margt áhugavert í henni að sjá, margt sorglegt líka, en þetta er a.m.k. einhver grunnur sem við höfum í þá vinnu sem er viðvarandi vinna stjórnmálanna, þ.e. að búa þannig um hnútana að velferð í landinu sé sem mest og hér eigi ekki að vera fólk, hvað þá börn, sem líði mikinn skort í jafn auðugu samfélagi og íslenska samfélagið er, þannig að takk kærlega fyrir þetta.

Skýrslunni er auðvitað, eins og fram hefur komið, ætlað að meta þann kostnað sem fellur til vegna fátæktar og þá erum við ekki bara að velta fyrir okkur þeim kostnaði og þeim erfiðleikum sem fátækt veldur þeim sem glíma við sáran skort heldur einnig samfélagslega kostnaðinum sem fellur til og hann er auðvitað mikill. Mér finnst mjög til bóta þegar við erum að ræða þessi mál að við reynum að skoða þetta út frá báðum þessum þáttum, þ.e. fólkinu sem glímir við erfiðleikana og einnig hvaða áhrif þessir erfiðleikar hafa síðan á kerfin okkar, kostnaðinn í ríkisrekstrinum og hjá sveitarfélögum og öðrum, þannig að það er mjög gott að fá fram tölur sem hér birtast í þessari skýrslu. Það má auðvitað endalaust deila um alla þá mælikvarða sem notaðir eru, og hugtökin. Það breytir engu hins vegar um að hér höfum við ákveðnar vísbendingar til þess að tala út frá og vinna út frá.

Fátækt er auðvitað mein fyrir þá sem búa við fátækt. Þetta er samfélagslegt mein. Það er á ábyrgð okkar allra að koma málum þannig fyrir að við séum að ýta lífskjörum upp. Þá þurfum við að horfa til ýmissa þátta, annars vegar þá þess að lyfta lífskjörum almennt upp en líka þá einhverra svona skemmri aðgerða til þess að bregðast við því fólki sem er í sárri stöðu í dag. Mér finnst umræðan í samfélaginu oft ganga meira út á síðarnefnda þáttinn, þ.e. einhverjar beinar aðgerðir sem nýtast fólki í dag en kannski minna gert af því að skoða málin til lengri tíma.

Það kemur fram í þessari skýrslu að árið 2020 töldust um 48.000 einstaklingar, þar af um 9.000 börn, vera undir lágtekjumörkum. Menn hafa verið að benda á það hér að þetta hafi lækkað úr 15,3% í 13,5% milli 2000 og 2020. Þessar tölur eru auðvitað verulegt áhyggjuefni fyrir okkur, þ.e. fjöldinn sem þarna er undir, og sárast er auðvitað að sjá hversu mörg börn alast upp við kröpp kjör. Það er verið að meta heildarkostnað samfélagsins vegna fátæktar og þar eru menn að tala um einhvers staðar á bilinu 32–92 milljarða kr. á ári. Það er auðvitað mikil óvissa í tölunum eins og kannski gefur að skilja, það er erfitt að meta þetta, en þetta segir okkur a.m.k. þá sögu að undir eru milljarðatugir. Sá kostnaður sem fellur til vegna beinna aðgerða vegna fátæktar ætti þá a.m.k. að lækka þessa heildartölu sem þarna er undir þannig að það er full ástæða til að rýna þetta vel út frá því.

Það kemur fram að það að draga úr fátækt sé langtímafjárfesting og það tek ég svo sannarlega heils hugar undir. Það er reyndar oft þannig, við erum svo föst hér í þinginu í því að hugsa í annaðhvort fjárlagaárum eða kjörtímabilum, að við gerum minna af því að hugsa mál enn lengra fram í tímann og hérna er auðvitað um að ræða eitthvað sem við getum kallað langtímafjárfestingu til framtíðar. Þetta er gríðarlega mikilvægt úrlausnarefni fyrir alla, fátækt fólk og samfélagið allt. Það sem við í Viðreisn höfum verið að tala mikið um í okkar málflutningi er að það er hægt að gera ýmsar breytingar á samfélaginu sem efla lífskjör almennt. Við þekkjum það t.d. núna að matarkarfan okkar hækkar og hækkar. Það er ekki bara matarkarfan sem er að hækka, það eru öll aðföng til heimila að hækka. Það eru öll aðföng til fyrirtækja að hækka sem eykur síðan kostnað fyrirtækjanna og því er síðan aftur velt út í verðlagið eins og við þekkjum, þannig að verðbólgan er eitthvað sem við Íslendingar þekkjum vel. Þegar við erum að horfa á verð á nauðsynjum hækka mikið, við getum tekið matinn kannski þar sérstaklega, þegar húsnæði er að hækka og fleira sem enginn getur neitað sér um, þá er það auðvitað þannig að verðbólga og þessar miklu verðlagshækkanir sem við erum að horfa á bitna langharðast á þeim sem lægstar hafa tekjurnar. Fátækt fólk verður verr úti í því verðbólguástandi sem við erum að glíma núna við og þetta er þrálátt ástand. Ofan á það bætist síðan að sjálfsögðu vaxtastigið líka.

Við höfum verið að benda á það í mínum flokki að til að mynda beinn kostnaður samfélagsins við að halda úti þessum gjaldmiðli sem við erum að halda úti geti verið um 300 milljarðar kr. á ári. Setjum það aðeins í samhengi við tölurnar sem hér eru undir þegar verið er að meta samfélagslegan kostnað fátæktar einhvers staðar á bilinu 32–92 milljarða. Það er mín skoðun og míns flokks að stöðugra efnahagsumhverfi, þar sem við erum ekki alltaf að fá þessa leiðinlegu og háu verðbólgukúfa, er eitthvað sem hentar lágtekjufólki og fátækasta fólkinu í samfélaginu langbest. Stöðugleiki er í raun og veru ákveðin lykilforsenda í því ef við ætlum að lyfta lífskjörum hér upp almennt yfir alla, af því að við skulum ekki vanmeta það að svona almennar aðgerðir þar sem við erum mögulega að breyta einhverjum undirliggjandi kerfum í samfélaginu gagnast öllum, ekki bara millitekjuhópum eða þeim sem hafa góðar tekjur heldur ekki síst þeim sem berjast við fátækt. Það er eitt af því sem við viljum halda mjög einbeitt til haga í þessari umræðu.

Hluti af þessu er síðan auðvitað vaxtaumhverfið sem fylgir þessari miklu verðbólgu. Þar getum við auðvitað svo sem sagt satt að það er ekki allt fólk sem glímir við fátækt í eigin húsnæði og er þar af leiðandi kannski ekki að bera mikinn vaxtakostnað af því að búa í eigin húsnæði en það er alls konar annar kostnaður á bak við vextina sem bitnar sárt á fátækasta fólkinu. Við erum t.d. að heyra sögur af því að fátækt fólk sem ekki nær að láta tekjurnar sínar eða innkomuna duga á milli mánaðamóta sé stundum að fleyta sér áfram á yfirdrætti. Yfirdráttarlán eru með svimandi háa vexti þannig að vaxtakjör í landinu eru auðvitað eitthvað sem bítur þennan hóp mjög sárt líka.

Við höfum líka verið að benda á það að þetta fákeppnisumhverfi sem við búum við á Íslandi bitnar mjög harkalega á þeim sem lægstar hafa tekjurnar. Meiri samkeppni í samfélaginu myndi lækka vöruverð sem nýtist okkur öllum. Þetta er eitthvað sem við þurfum mjög að horfa til þegar við erum að vega og meta alla þessa þætti.

Það kemur fram í skýrslunni að í tveimur lægstu tekjufimmtungunum hafa yfir 40% fólks ekki efni á geðheilbrigðisþjónustu. Á heildina litið er þetta afskaplega há prósenta af heildarfjölda þjóðarinnar. Við í Viðreisn höfum mikið verið að tala um og lögðum það reyndar til hér fyrir nokkrum árum að ríkið taki aukinn þátt í geðheilbrigðiskostnaði með því að niðurgreiða sálfræðiþjónustu. Þetta var samþykkt hér í þinginu fyrir nokkrum árum. Efndirnar hafa því miður ekki verið í samræmi við það sem samþykkt var og við erum að sjá það hér í þessari skýrslu að þarna er eitt úrræði sem myndi gagnast fátæku fólki einna best. Þar er verk að vinna og ég ætla bara að nota tækifærið og vonast til þess að stjórnvöld setji nú aukinn þunga í þetta því þetta síðan skapar aftur þann veruleika fyrir okkur að þetta minnkar álagið á önnur kerfi í samfélaginu, heilbrigðiskerfið og félagslegu kerfin.

Við erum að sjá það í þessari skýrslu að fátækt dreifist auðvitað ekki jafnt yfir þjóðina. Öryrkjar eru dæmdir til að vera undir lágtekjumörkum alla ævi, sérstaklega öryrkjar sem eru með börn á sínu framfæri. Minn flokkur hefur talað mikið fyrir því að það þurfi að einfalda þessi kerfi. Ég held að það dyljist engum að partur af vandanum okkar hér er að kerfin eru svo flókin að það skilur þau enginn. Það eru girðingar og skerðingar víða sem halda fólki niðri í fátæktarhlekkjum. Undan þessu verðum við að komast, bæði að einfalda kerfið og gera það sveigjanlegra og það á að vera þannig að enginn lífeyrisþegi almannatrygginga fái lægri heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum, svo ég vitni bara beint í stefnumið míns flokks. Þarna held ég að sé til mikils að vinna, að einfalda kerfið mikið. Ég átta mig á því að þetta er kostnaðarsamt, að fara í miklar aðgerðir í þessu og þess vegna hefur mér kannski stundum svolítið fundist vanta upp á það að menn séu með einhverja trúverðuga langtímasýn í því hvernig við ætlum að byggja upp þessi kerfi til að fólkið sem reiðir sig á þau sé ekki fast í fátæktargildru.

Það kemur líka fram í skýrslunni að fátækt er meiri meðal innflytjenda en annarra hópa. Þetta finnst mér vera verulegt áhyggjuefni líka, einfaldlega vegna þess að við sjáum það á því hvernig aldur þjóðarinnar er að við byggjum ekki upp framtíðarvelferð íslensks samfélags til áratuga öðruvísi heldur en að hingað komi til okkar fólk utan úr heimi og byggi upp samfélagið með okkur. Það er rétt að taka fram að hér erum við auðvitað ekki bara að tala um flóttafólk og hælisleitendur eða verndarkerfið, við erum auðvitað að tala um alla innflytjendur. Hér hefur okkur eitthvað mistekist vegna þess að þetta skiptir gríðarlega miklu máli upp á framtíðarvelferðina. Við megum auðvitað ekki koma málum þannig fyrir að þessi hópur sé hlutfallslega fátækari heldur en aðrir sem þetta land byggja. Þetta er eitthvað sem við í Viðreisn höfum mikið talað um, þ.e. að líta á þetta fólk, hvort sem um er að ræða verndarkerfið eða aðra hópa sem hingað koma til að búa, sem verðmæti sem býr til velferðarsamfélag fyrir okkur til lengri tíma, til framtíðar. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða mjög vel, hvers vegna tölurnar eru að koma svona út í þessari skýrslu. Við getum auðvitað horft t.d. til Noregs og Kanada um það hvernig vel hefur gengið að fá innflytjendur til að taka virkan þátt í samfélaginu.

Síðan kemur líka fram í þessari skýrslu að það er hærra hlutfall fólks undir lágtekjumörkum á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum en á öðrum svæðum landsins. Við þurfum auðvitað að fara vel ofan í það og rýna hvers vegna það er. Á landsbyggðinni er hærra hlutfall fátæktar í dreifbýli en í þéttbýli og það segir okkur kannski einhverja sögu um að sumt af því sem við höfum verið að gera í byggðamálum og landbúnaðarmálum hefur ekki alveg verið að skila sér til þeirra sem þar eru undir. Það er eitthvað sem við þurfum auðvitað að taka til okkar úr þessari skýrslu.

Síðan kemur fram að fólk á eftirlaunaaldri sé ekki í hærra hlutfalli en aðrir hópar þegar kemur að fátækt en munurinn er kannski sá að fátækt þeirra sem þó eru undir lágtekjumörkunum er almennt mjög djúp og mikil. Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða auðvitað sérlega vel. Það þýðir að þeir sem búa við fátækt á efri árum búa yfirleitt við mjög mikla fátækt. Hér erum við komin að einhverri meinsemd sem við þurfum að leggjast á árarnar við að útrýma því að auðvitað er það mjög sárt að horfa til þess að fullorðið fólk sem er búið að eyða ævinni í að byggja upp þetta samfélag með okkur skuli eyða síðustu árum lífsins í sárri fátækt. Það er alveg einstaklega nöturlegt.

Hér var umræða rétt áðan um það hvort hægt væri að útrýma fátækt eða minnka fátækt. Ég held að við hljótum alltaf að hafa það sem einhvers konar langtímamarkmið að útrýma fátækt. Aðalatriðið er að bæta lífskjör þjóðarinnar almennt til að ná upp lífskjörum þeirra sem höllustum fæti standa. Auðvitað er það þannig að það verður aldrei einhver algild og aljöfn dreifing á tekjum í samfélaginu og eignum en þeir sem búa við lökustu kjörin eiga a.m.k. að geta búið við betri lífsgæði en þeir gera í dag í samfélagi eins og hér á Íslandi. Það held ég að sé algerlega ljóst.

Síðan má auðvitað líka tiltaka nokkra þætti sem koma fram og eru svo sem oft nefndir í kringum fátækt. Það er t.d. að fátækt leiðir til lakari heilsu. Það getur einfaldlega verið ákveðin neyð þar að baki sem neyðir fólk í að kaupa ódýrari og óhollari matvæli heldur en aðrir hafa kannski kost á að gera. Það gæti verið ein skýringin í þessu. Þess vegna árétta ég það sem ég kom inn á fyrr í ræðunni, að það að ná niður matarkostnaði, matvörunni niður í verði, er algjört lykilatriði fyrir okkur öll en ekki síst þá sem höllustum fæti standa.

Ég endurtek þakkir mínar til þeirra sem báðu um þessa skýrslu og til forsætisráðherra fyrir að koma hingað í þingið og efna til samtals um hana við þingmenn.