154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:43]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Mig langar í seinni ræðu aðeins að ítreka það sem ég fjallaði um í minni fyrri ræðu og koma kannski með aðeins aðra nálgun á þetta líka. Varðandi fátækt þá megum við ekki gleyma því hversu rík við erum og hversu efnuð við erum og hversu heppin við erum að búa við allar þessar auðlindir. Það þýðir að fátæktin ber merki þess að það er misskipting í samfélaginu. Þeim er sannarlega misskipt. Ég kem úr kjördæmi sem hefur búið við mikla erfiðleika, þar eru byggðir sem eru kallaðar brothættar byggðir og ég get ekki skilið það öðruvísi en að brothættar byggðir séu fátækar byggðir. Það er fátækt á landsbyggðinni, í sjávarþorpum sem hafa ekki fengið að njóta aðgangs að fiskimiðunum sem eru nánast beint fyrir utan eldhúsgluggann hjá fólkinu, því hefur verið neitað um það að taka þátt í verðmætasköpun í helstu atvinnugrein þjóðarinnar. Þetta er sárara en tárum taki þar sem þær veiðar sem hægt er að berjast fyrir, sem eru frjálsar strandveiðar, veiðar á krók og öngul — fólk hefur ekki einu sinni fengið það atvinnufrelsi og notið sjálfsbjargarviðleitni sinnar til að fara út og veiða á handfæri til að taka þátt í verðmætasköpun á svæðinu og stærstu atvinnugrein þjóðarinnar og fá að njóta þjóðarauðlindarinnar.

Tökum sem dæmi Vestfirði. Þar eru margar sjávarbyggðir sem hafa búið við fátækt vegna þess að þær hafa ekki haft neinn kvóta og ekki fengið að hafa atvinnufrelsi og sjálfsbjargarviðleitni. En núna hefur komið ný atvinnugrein sem er mikilvægt að standa vörð um. Það er laxeldið og maður sér að það er allt annað yfir landsbyggðinni og þeim svæðum sem hafa fengið að njóta sín í þessari nýju atvinnugrein. Það er samt mikilvægt að fólk fái líka að stofna sín eigin litlu fyrirtæki og taka þátt í strandveiðum og njóta þeirrar auðlindar sem hefur byggt upp íslenskt samfélag undanfarna áratugi og gert okkur eitt af ríkustu samfélögum heims.

Skoðum tölurnar um fátækt sem komu fram í skýrslu Barnaheilla sem kom út í mars síðastliðnum, þar sem kom fram að 13,1% barna á Íslandi eigi á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun og alast upp við fátækt. Það er aukning frá síðustu mælingum, þá mældist það 12,7%, þau sem voru í þessari stöðu. Börnin sem var rætt við við gerð skýrslu Barnaheilla segjast einmana, útilokuð og vinalaus því þau geta ekki leyft sér sams konar líf og jafnaldrarnir. Þau reyni þó að fela stöðuna fyrir jafnöldrum en segja að fátækt ræni þau vonum og draumum og réttindum. Þetta þýðir að þetta er leynt vandamál líka. Þetta er vandamál sem fer ekki hátt. Fólk reynir að skýla fátækt sinni. Það er ákveðin skömm sem fylgir því að eiga börn í fátækt, svo ég tali nú ekki um foreldra sem eiga erfitt með að sjá börnum sínum farborða með þeim hætti að reisn sé af og þau geti verið stolt af sínu lífi og barna sinna. Þau geta hins vegar ekki leyft sér sams konar líf og jafnaldrarnir. Þau eru að fela þessa stöðu fyrir jafnöldrum. Það rænir þau vonum og draumum og réttindum.

Átakið sem þarf að fara í er ekkert svo rosalega dýrt, eins og kom fram í fyrri ræðunni. Það að lyfta öllum börnum úr lágtekjumörkum upp í mörkin sem eru þá yfir lágtekjumörkunum kostar 16,5 milljarðar kr. Rétt er að benda á að slík aðgerð lyftir líka fullorðnum fjölskyldumeðlimum barna upp fyrir lágtekjumörkin. Þarna er um gríðarlega mikið þjóðhagslegt hagsmunamál að ræða sem eitt ríkasta samfélag heims — og við megum aldrei gleyma því hvar við stöndum miðað við aðrar þjóðir, það er skiptingin sem skiptir hér máli. Það er bara spurning um metnað stjórnvalda og metnað þessarar ríkisstjórnar og þingmeirihlutans. Barnaheill segja í skýrslu sinni að það þurfi fyrst og fremst pólitískan vilja ef uppræta á fátækt, ekki gleyma því. Það er mjög mikilvægt. Það þarf pólitískan vilja, stefnu og mælistikur. Það er ekki síst gert með stuðningi og uppbyggingu innviða sem stuðla að jöfnuði og jafnræði. Þegar ég tala um að stuðla að jöfnuði og jafnræði þá get ég ekki annað en talað um innviðaskuld sem Vestfirðir eiga hjá þjóðinni eftir áratuga hnignun og skort á uppbyggingu innviða. Þetta á við um allt land. Ef við ætlum að búa við jöfn lífsskilyrði í landinu þá verður það að eiga við. (Forseti hringir.) Við verðum að hafa þjóðarstefnu til að berjast gegn fátækt. Við erum með menntastefnu og alls konar aðrar stefnur. (Forseti hringir.) Við verðum að hafa eina heildstæða stefnu sem heitir stefna í baráttunni gegn fátækt á Íslandi.