131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[12:44]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Mér finnst skýrslan sem við erum að fjalla um hér, skýrsla byggðamálaráðherra um framvindu byggðamála, algjörlega ófullnægjandi. Hvers vegna segi ég það? Jú, það er ófullnægjandi hvernig árangurinn er metinn. Ekkert mat er lagt á fjölgun starfa á landsbyggðinni í fyrsta lagi. Í öðru lagi er ekkert yfirlit yfir íbúaþróun á landsbyggðinni. Ég tel að ef við ætlum að halda áfram að fjalla um byggðamál með einhverjum vitrænum hætti verðum við að hafa einhverjar mælistærðir sem við berum saman á milli ára en tölum ekki um einstök verkefni út og suður, eins og mér finnst því miður stundum að ríkisstjórnarflokkarnir vilji gera. Þeir tala um eitt og eitt verkefni, forðast að ræða um sum mál og ég tel að við verðum að koma þessari umræðu á vitrænna svið en nú er. Það er ekkert vit í því að fjalla um 30 blaðsíðna skýrslu og við fáum engar mælistærðir, hvernig við mælum árangurinn. Það er sagt frá einhverjum milljónum sem fara í hin og þessi verkefni. Ég tel að þessu þurfi að breyta. Ég á von á að margir aðrir hv. þm. séu mér sammála um að þetta gangi ekki lengur.

Almennt í umræðu um byggðamál finnst mér vera kominn tími til að ræða hlutina. Í gær var verið að tala um byggðamál og mér heyrðist á hæstv. byggðamálaráðherra að ég væri hálfvanþakklátur fyrir það að ríkisstjórnarflokkarnir hefðu flutt Byggðastofnun til heimabæjar míns, Sauðárkróks. Ég spyr: Eigum við sem búum á landsbyggðinni að vera eitthvað sérstaklega þakklát fyrir það að stofnun eins og Byggðastofnun sé flutt út á land? Hvar á hún betur heima en úti á landi? Ég spyr. Mér finnst það bara ósköp eðlilegt. Ég segi það, eigum við sem búum úti á landi að vera eitthvað sérstaklega þakklát fyrir að lagðir séu vegir? Mér finnst þetta bara sjálfsagt mál.

Svo getum við líka snúið dæminu við og sagt að einhverra hluta vegna væri stofnun sem fjallaði um borgarmál staðsett austur á fjörðum og þá ættu Reykvíkingar að vera sérstaklega þakklátir yfir því að stofnunin yrði flutt suður á land. Nei, ég held að það væri bara eðlilegt mál sem þyrfti ekki að fjölyrða mikið um.

Fleira er athyglisvert við þessa skýrslu, t.d. að ekkert er fjallað um einn helsta atvinnuveg landsbyggðarinnar, sjávarútveginn. Það er náttúrlega mjög sérstakt, svo að ekki sé meira sagt. Það er eftir öðru að ríkisstjórnarflokkarnir forðast að ræða sjávarútvegsmál en auðvitað vita allir, og örugglega skýrsluhöfundar, að það hvernig komið er fyrir sjávarútvegi landsmanna er ein helsta ástæðan fyrir því hvernig komið er í sjávarbyggðunum. Auðvitað eigum við að ræða það í svona skýrslu, mér finnst það. Ég tel að skýrslan sé hálfhlægileg þegar ekkert er fjallað um sjávarútvegsmál, eða nánast ekki neitt.

Það er annað sem þarf að tala um í sambandi við byggðamálin. Það má helst ekki minnast á vanda landsbyggðarinnar, þá er verið að draga kjark úr fólki. Það virðist ekki mega tala um hlutina eins og þeir eru. Ég hafna því alfarið. Hvernig ætlum við að komast fyrir raunverulegan vanda landsbyggðarinnar ef við tölum ekki um meinið?

Hvað sem því líður ætla ég að halda mig við skýrsluna. Í inngangi að henni kemur heildarmat Byggðastofnunar og það er eins og áður, þar er ekkert fjallað um fjölda starfa eða íbúaþróun. Að vísu eru ágætisverkefni tíunduð. Það kom fram að ríkisstjórnin hefði veitt 700 millj. kr. framlag til að auka hlutafé í sprotafyrirtækjum. Það er mjög vel, það ber að þakka. Ef eitthvert verulegt gagn ætti að vera að skýrslunni kæmi auðvitað fram um hversu mörg störf hefði fjölgað úti á landi vegna þessara upphæða.

Síðan er fjallað enn og aftur um menningarhús, talað um samning um byggingu menningarhúsa. Ég veit ekki hvað menn ætla að fjalla lengi um þau. Er ekki komið á annan áratug sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa fjallað um menningarhúsin? Kannski má velta því upp hvers vegna menn fjalli ekki um fjölgun starfa og íbúaþróun á landsbyggðinni. Hvers vegna hafa menn það ekki inni í þessari skýrslu?

Hér verður innan tíðar umræða um fjölgun eða fækkun starfa í sjávarplássi og þegar ég grennslaðist fyrir um það um daginn kom í ljós að störfum hafði fækkað um 100 í einungis litlu sjávarþorpi í valdatíð Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.

Svo er í skýrslunni fjallað um stuðningsverkefni fyrir frumkvöðla en ekkert kemur fram hvað störfum hafi fjölgað mikið við þau. Hérna er t.d. ágætisverkefni tíundað í skýrslunni, Brautargengi, 15 vikna námskeið fyrir konur til að hvetja þær til atvinnusköpunar. Mér skilst að 60 konur af landsbyggðinni hafi sótt þetta námskeið. Hverju hefur það skilað? Það vantar algerlega í skýrsluna. Hins vegar eru tíundaðir samningar Byggðastofnunar við atvinnuþróunarfélögin og á bls. 5 í skýrslunni kemur fram að þar hafi störfum fjölgað um fjögur. Auðvitað ber að þakka það sem vel er gert. Síðan er skýrslan því miður full af skýrsluskvaldri eins og ég kalla það. Verið er að vitna í lög og reglugerðir og mjög lítið kjöt er á beinunum hvað varðar í rauninni afrakstur þessarar vinnu.

Á bls. 6 er síðan fjallað lítillega um stækkun sveitarfélaga. Í sjálfu sér finnst mér mjög þarft verk að skoða stækkun sveitarfélaga en ég tel að það sé enn ein leiðin til að forðast að ræða raunverulegan vanda landsbyggðarinnar, það að fara allt í einu að ræða um sameiningu sveitarfélaga. Það er líka annað athugavert við þá vinnu. Þegar nefndin sem á að fjalla um sameiningu sveitarfélaga var sett saman var Frjálslyndi flokkurinn settur út. Það er með ólíkindum að hæstv. félagsmálaráðherra skuli beita svo ólýðræðislegum vinnubrögðum því að ég er sannfærður um að Frjálslyndi flokkurinn hafði miklu meira fram að færa varðandi byggðamál en Framsóknarflokkurinn, eða a.m.k. sýna tölur um íbúaþróun að sagan er Framsóknarflokknum mjög óhliðholl. Hann hefur reynst mjög slæmur fyrir landsbyggðina í þessari níu ára setu. Það sjá allir sem fara í gegnum tölur Hagstofunnar.

Ég tel að hæstv. félagsmálaráðherra ætti að fara að dæmi hæstv. menntamálaráðherra, fjölga í nefndinni og koma okkar góðu sjónarmiðum í Frjálslynda flokknum inn í hana. Ég er alveg sannfærður um að það mundi liðka fyrir málinu frekar en hitt.

Síðan er það í fjórða lagi á bls. 7, efling opinberra verkefna og þjónustu á landsbyggðinni. Hæstv. forseta þingsins Halldóri Blöndal og hv. þm. Magnúsi Stefánssyni var falið að skrifa nýja skýrslu, skilst mér, og engin störf koma út úr því.

Í fimmta lagi er í skýrslunni fjallað um athugun á búsetuskilyrðum fólks og í sjötta lagi athugun á starfsskilyrðum atvinnuveganna. Þó svo að það hafi verið rætt á þingi að rafmagnsverð hjá fyrirtækjum á landsbyggðinni sé 30% hærra en á höfuðborgarsvæðinu er ekki fjallað um það í skýrslunni. Hins vegar er rætt um flutningsjöfnun, enn og aftur. Hæstv. byggðamálaráðherra ræddi um flutningsjöfnun hér. Ég veit ekki hvað hún er búin að gera það í mörg ár en ekkert kemur út úr því. Hið eina sem hefur gerst er að sú litla flutningsjöfnun sem var í landinu var aflögð, þ.e. flutningsjöfnun á sementi. Mér finnst furðulegt að talað skuli vera um flutningsjöfnun á vörum ár eftir ár og ekkert gerist nema þá að það versni.

Um byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð er ágætur kafli og mér sýnist á þeim kafla að þar komi til fimm störf. Ég reiknaði þetta út og sló á að það væru fimm störf, ekki meira. Það er hins vegar ekkert tekið á vanda Ólafsfjarðar og Dalvíkur. Sérstaklega í Ólafsfirði hefur störfum farið fækkandi í sjávarútvegi, m.a. vegna fiskveiðistjórnarkerfisins eða óstjórnar í því. Ég tel að þar sé um mikinn vanda að ræða og skýrsla um byggðaáætlun sem hefði einhvern raunverulegan metnað tæki sérstaklega á þeim atriðum þar sem út af ber. Það væri einblínt á sjávarbyggðirnar.

Hér er í áttunda lagi fjallað um eflingu núverandi landbúnaðarskóla sem fræðslu-, rannsóknar- og þróunarsetur og ég tel að það sé mjög gott mál. Því miður kemur ekkert fram hvað störfum fjölgar. Hvað varðar landbúnaðarráðuneytið hefur hæstv. landbúnaðarráðherra verið þekktastur fyrir það nú síðustu árin að fækka sláturhúsum og hann virðist leggja sum byggðarlög nánast í einelti, svo sem í Búðardal. Maður furðar sig á því.

Í níunda lagi er fjallað um eflingu fiskeldis og ég tel að það sé mjög gott mál. Hér kemur fram að helmingi af andvirði steinullarverksmiðjunnar sem svarar til 105 millj. kr. hafi verið varið til tveggja verkefna á sviði fiskeldis. Ég tel að það sé mjög gott mál og fyrir það ber að þakka.

Síðan kemur kafli um fjarskiptamál í dreifbýli, það er m.a. UD, upplýsingatækni í dreifbýli. Við Ísafjarðardjúp stendur byggð höllum fæti og fólk hefur sótt um það árum saman að tengjast með ISDN-tengingu. Ekkert gerist þó og það fæst varla svar frá Landssímanum þangað til nú nýlega að svar kom um að viðkomandi fengju ekki að vera tengdir með ISDN-tengingu. Þetta gerir náttúrlega fólki illkleift hreinlega að stunda nútímalífshætti. Það er ekki hægt að greiða reikninga í heimilisbanka því slíkt krefst þessara tenginga, þetta er orðið það þungt umhverfi. Það er í rauninni með ólíkindum að hæstv. byggðamálaráðherra skuli ekki hafa metnað fyrir því að halda þessum bæjum í byggð og tengja þá sérstaklega. Þarna stendur byggð hvað höllustum fæti og það er mjög mikilvægt að þeir séu tengdir og verði í byggð, líka út frá öryggissjónarmiðum.

Síðan er það jöfnun verðs á gagnaflutningum. Fram kemur að Landssíminn hafi náð samkomulagi við samgönguráðherra frá 16. mars 2001 sem tryggi uppbyggingu ATM-gagnaflutningsneta. Þetta lítur allt vel út á pappírnum. En því miður er raunveruleikinn sá að þau sveitarfélög eða þau fyrirtæki sem geta einungis tengst með þessum hætti þurfa að greiða 55 þús. kr. fyrir símtengingu. Flest þeirra kæmust vel af með ADSL sem kostar 3.500 kr. Ég sé að þarna er stór og mikill munur á búsetu- og starfsskilyrðum fyrirtækja á þessum svæðum og ég hefði talið að það ætti að vera eitt af forgangsverkefnum að leysa þetta mál.

Ég sé að tíma mínum er að ljúka og reikna með að fjalla í næstu ræðu um síðari hluta skýrslunnar sem er jafnþunnur og fyrri hlutinn.