131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Áfengisauglýsingar.

[13:49]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Áfengisauglýsingar eru bannaðar með lögum á Íslandi. Þau lög eru brotin nánast daglega. Hæstv. ráðherra var spurður að því hér hvort hann mundi beita sér fyrir því að farið væri eftir þessum lögum því það er alveg ljóst að með því að brjóta þau er farið gegn m.a. heilbrigðisáætlun sem samþykkt hefur verið hér á Alþingi. Þar eru forgangsverkefni m.a. áfengis-, vímuefna- og tóbaksvarnir og börn og ungmenni, svo ég nefni bara fyrstu tvö atriðin af sjö sem talin eru upp í heilbrigðisáætlun.

Áfengisneysla hefur aukist frá 1995, segir hæstv. ráðherra í ræðu sinni, og mest á Íslandi, um 37%. Í heilbrigðisáætlun okkar segir í aðalmarkmiði um áfengis-, vímuefna- og tóbaksvarnir, með leyfi forseta:

„1.a Áfengisneysla á hvern íbúa verði ekki meiri en 5,0 lítrar af hreinu alkóhóli á íbúa 15 ára og eldri og nánast engin hjá þeim sem yngri eru.

1.b Dregið verði úr áfengis- og vímuefnaneyslu fólks undir lögaldri um 25%.“

Hvernig í ósköpunum ætlum við að ná þessum markmiðum með því að láta þetta allt óátalið? Það getur vel verið að það þurfi að endurskoða lögin en þau gilda núna í landinu og auðvitað ætti það að vera á hendi hæstv. heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir því að farið verði að þeim lögum.

Ég minni á að undir hæstv. ráðherra er allt lýðheilsustarf og Lýðheilsustöð. Þar er fjöldi ráðgjafa um þessi mál. Ég spyr hæstv. ráðherra:

Hefur hann heyrt eitthvað frá ráðgjöfum sínum í vímuefnaráði um þessar auglýsingar? Hafa þeir gefið honum ráð um hvernig eigi að beita sér gegn þessum auglýsingum?

Ég minni einnig á að með því að láta þetta óátalið förum við ekki heldur að þeim markmiðum sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur sett sér varðandi þennan málaflokk.

Ég tel, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) fulla ástæðu til þess að hæstv. ráðherra taki til hendinni þó að málaflokkurinn heyri ekki beint undir hann.