131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[16:26]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að Síminn sé á fullri ferð í öðrum verkefnum en að kaupa upp illa stödd fjölmiðlafyrirtæki. En ég vil taka undir það að það er um að gera að nýta sér þjónustu hinna smærri fyrirtækja til að veita háhraðatengingunum áfram og einnig þeirra fyrirtækja sem hafa veitt þá þjónustu í ýmsum sveitarfélögum og má þar nefna eMax, Ábótann ehf. og fleiri prýðileg fyrirtæki.

En ég tel að hið opinbera eigi að hafa milligöngu í þessu máli með því að gera samkomulag um að hvert einasta heimili á landinu hafi aðgengi að háhraðanettengingu með einhverjum hætti. Hið opinbera á að nýta afl og kraft Símans til þess og ganga úr skugga um að þetta verði gert. Að sjálfsögðu á að gera þjónustusamninga við þessi smærri fyrirtæki sem hafa veitt alveg prýðilega þjónustu víða um land nú þegar og hafa með framgöngu sinni bylt búsetumöguleikum á þeim svæðum.