132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

[10:49]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Virðulegur forseti. Í umræðunum áðan sagði hæstv. félagsmálaráðherra: Það þarf að höfða til ábyrgðar fyrirtækja í landinu.

Miðað við þær umræður sem hafa verið hér í dag og hafa verið í þjóðfélaginu að undanförnu og þær deilur sem við höfum séð virðist það ekki duga að höfða til ábyrgðar fyrirtækja. Þess vegna þarf í þessu sambandi að setja sérstök lög um starfsmannaleigur. Vinnuafl má ekki lúta sömu reglum og gilda um vöru og þjónustu. Það þarf að banna alla gjaldtöku og alla aukagjaldtöku af starfsmönnum. Það verður að tryggja í lögum upplýsingaskyldu fyrirtækja og starfsmannaleigna gagnvart starfsmönnum og gagnvart stjórnvöldum. Jafnframt þarf að lögbinda að þau fyrirtæki sem nota þessa þjónustu beri ábyrgð á öllum kröfum starfsmannanna. Það þarf að tryggja þríhliða vinnuréttindasamband til að koma í veg fyrir að grafið sé undan réttindum starfsmanna og til að tryggja að ekki dragi úr skyldum atvinnurekenda. Enn fremur þarf að tryggja að starfsmönnum sé ekki mismunað. Allt tekur sinn tíma en maður veltir því fyrir sér: Hverjum er það virkilega í hag að þetta taki svona langan tíma að koma lögum yfir starfsmannaleigur?