132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Kostir og gallar færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins.

27. mál
[16:57]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég held að það sé gott að menn velti fyrir sér grundvallaratriðum í fiskveiðistjórn. Hvers vegna erum við að vernda fiskinn í hafinu? Ég held að það sé kominn tími til að menn fari að velta þeirri spurningu fyrir sér. Er þetta einhver fiskvernd eða um hvað snýst málið?

Ég tel að fiskverndarkerfið hér á Íslandi sé fyrir löngu farið að snúast um allt annað fiskvernd, það snýst um peninga, þetta er svona peningakerfi, þetta snýst alls ekki um fiskvernd. Ef allt væri með felldu hvað íslenska fiskveiðistjórn varðar væru útgerðarmenn hér á pöllunum að hvetja til þess að menn skoðuðu kerfi eins og í Færeyjum þar sem náðst hefur sá árangur að fiska jafnmikið að jafnaði og gert var áður en menn fóru að stýra veiðum. En eftir að kvótakerfið var tekið upp hér veiðum við helmingi minna en samt sem áður vilja margir útgerðarmenn, alla vega þeir sem hafa yfir miklum kvóta að ráða, halda í kerfið þó svo árangurinn sé minni en enginn, helmingi minni afli á land. Sú spurning er mjög veigamikil hvers vegna við erum að stýra fiskveiðum. Fiskveiðar eiga ekki eingöngu að snúast um fiskvernd, fiskveiðar eiga einnig að snúast um fólk og það skiptir verulega miklu máli að við séum ekki með eitthvert fiskverndarkerfi eða peningakerfi á Íslandi sem leggur heilu landshlutana í rúst. Þegar svo verið er að ræða við hæstv. ráðherra eins og hér í dag þá er bara snúið út úr og engu svarað.

Færeyska kerfið hefur ákveðna yfirburði. Yfirburðirnir felast í því að í kerfið er innbyggð ákveðin fiskvernd. Það er einfaldlega svo að með sömu sókn fæst meiri veiði þegar mikið er af fiski á slóðinni, rétt eins og í rjúpnaveiði. Ef mikið er af rjúpu og menn ganga til rjúpna þá veiða menn venjulega vel. En gallinn er sá að í því kerfi sem við notum, svokölluðu kvótakerfi, eru menn fyrir fram búnir að reikna út hve mikið má taka af fiski og oftar en ekki hafa þeir útreikningar brugðist. Við sjáum að menn hafa tapað mörg hundruð þúsund tonnum af þorski, menn hafa verið að reikna eitt og annað á mjög veikum forsendum. Í Færeyjum þarf einfaldlega ekki að vera að spá fyrir um hve margir fiskar eru í hafinu heldur er það þannig að með ákveðinni sókn, eins og hún hefur verið í gegnum árin, þá fá menn mikið af fiski ef mikill fiskur er á slóðinni en ef lítið er af fiski þá er veiðin einfaldlega minni.

Það er annað sem skiptir verulegu máli í færeyska kerfinu og ég tel að Íslendingar ættu að skoða. Það er að í því er enginn hvati til brottkasts og það skiptir verulega miklu máli að verðmætum sé ekki kastað á glæ. Það þriðja sem ég vil nefna, og það er mjög sérkennilegt við umræðuna á Íslandi, er að það er lítill vilji hjá stjórnvöldum til að skoða hluti sem ganga þokkalega vel, sérstaklega þegar illa gengur hér heima. Jafnvel heimabæir viðkomandi ráðherra eru rjúkandi rústir en samt sem áður má ekki skoða kerfi sem hefur gengið þokkalega vel.

Það ber að nefna það í þessari umræðu að aðrir þjóðir eru að skoða árangur Færeyinga, t.d. Bretar. Nýlega kom út skýrsla sem Tony Blair vann og þar voru kostir og gallar færeyska kerfisins raktir. Niðurstaðan varð sú að menn vildu skoða dæmið og það var einfaldlega á kosningaskrá breska Íhaldsflokksins að fara í sóknarstýrðar veiðar með strandveiðiflotann.

Á Norðurlöndunum eru einnig komnar fram tillögur um að stýra fiskveiðum á ákveðnu hafsvæði, Kattegat, með sóknarstýrðum veiðum vegna þess að menn eru einfaldlega farnir að sjá árangurinn af þessu kerfi. En hér heima mæta menn ekki einu sinni til umræðna þó svo að stjórnarliðar hafi fyrir nokkrum árum flutt sams konar tillögur.

Ég vil einnig minnast á eitt áður en tíma mínum lýkur, það er umræðan um rannsóknir á Íslandi. Ég sá að í næstu viku verður haldin ráðstefna um nýliðun og stærð hrygningarstofna og það samspil. Gögn frá Færeyjum sýna einfaldlega að öfug fylgni er á milli nýliðunar og hrygningarstofns. Samt sem áður er kallað til ráðstefnu á Íslandi og menn ræða ekki þessar staðreyndir. Það er orðinn til ákveðinn já-hópur á Hafró og í rannsóknarhópnum og þeir sem hafa deilt með rökum og vísindalegum gögnum á Hafrannsóknastofnun komast ekki að í umræðunni. Við sjáum það að fiskifræðingi eins og Jóni Kristjánssyni hefur t.d. ekki verið boðið til ráðstefnu í næstu viku þar sem á að ræða um áhrif hrygningarstofns á nýliðun. Nei, það er eins og menn þori ekki að skoða önnur sjónarmið, ekki einu sinni í vísindum. Ég lærði það einhvern tíma í háskólanum að vísindi gengju út á gagnrýna hugsun og að menn tækjust á um ólík sjónarmið. Nei, það á að halda óþægilegum skoðunum fyrir utan og stjórnvöld vilja ekki heldur skoða kerfi sem er öðruvísi, ekki einu sinni kosti þess. Ekki einu sinni þó að kerfið hér skili engum árangri, helmingi minni afli, byggðaflótti og nefnið það. Það er alveg með ólíkindum hvaða hörmungar kvótakerfið hefur leitt yfir þjóðina og við sjáum það nú síðast í pistli frá bæjarstjóranum í Vestmannaeyjum þar sem hann fer yfir þetta. Sjávarbyggðirnar eiga einfaldlega undir högg að sækja og ég tel það skyldu stjórnvalda að fara a.m.k. yfir það hvort hægt sé að hafa hlutina með öðrum hætti. Mér finnst það lágmarkskrafa. Þegar menn eru síðan spurðir út í þær aðgerðir sem þeir fara í á þessu kjörtímabili — fyrr í dag var hæstv. ráðherra spurður að því hvað hann hefði gert — þá er snúið út úr. Það er alveg óþolandi að menn geti ekki tekist á, skoðað kosti og galla annarra sjónarmiða, og reyni að halda þeim vísindamönnum fyrir utan umræðuna sem fara með gögnum yfir önnur sjónarmið hvað varðar nýliðun og lífssögu þorsks á Íslandi.