132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Kostir og gallar færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins.

27. mál
[18:28]
Hlusta

Guðjón Hjörleifsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Ég þurfti að bregða mér frá þannig að ég var ekki viðstaddur alla umræðuna, var á áríðandi fundi varðandi sjávarútvegsmál og gengismál. Það er mjög athyglisvert þegar frjálslyndir eru farnir að taka upp þingsályktunartillögur Framsóknarflokksins og flytja þær hér aftur. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson, (Gripið fram í.) það hefði nú verið skemmtilegra hefði það verið vinur framsóknarmanna, hv. þm. Sigurjón Þórðarson, sem hefði flutt hana. Það hefði verið alveg sérstakt hér á þingi.

Þessi umræða kemur mér á óvart og ekki síður kemur á óvart að fulltrúar Samfylkingar skuli vera hlynntir þessari tillögu. Ástæða þess er fyrst og fremst sú að Magnús Þór Hafsteinsson hefur verið að túlka á netinu, eyjar.net, að allt of mikil samstaða sé komin í sjávarútvegsmál á Íslandi, Samfylkingin sé orðin sammála þessu kvótakerfi, aflamarkskerfi sem við erum með, hann túlkar þannig ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, sem hún hélt á aðalfundi LÍÚ. Það les ég úr greinum hans. Ef við skoðum þetta í réttu samhengi og ef túlkun hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar er rétt, þá er alveg ljóst að 53 þingmenn eiga að vera á bak við þetta. Ef ég skil þig rétt þegar ég les greinarnar þínar á netinu.

Það var fundur í morgun í sjávarútvegsnefnd. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson komst ekki á fundinn, en þar var rætt um nefnd á vegum færeyska sjávarútvegsráðuneytisins sem kemur bráðlega í heimsókn, hún vinnur að endurskoðun veiðilöggjafar Færeyinga. Nefndin mun hitta okkur mánudaginn 14. nóv. klukkan hálffimm. Þar munum við fara í gegnum þessi mál og ræða við nefndarmenn. Ég hef trú á því að þeir séu að leita eftir ráðgjöf hjá okkur vegna okkar góða fiskveiðistjórnarkerfis, mér býður í grun að svo sé.

Varðandi þessa þingsályktunartillögu þá fer hún í efnislega meðferð í sjávarútvegsnefnd og ég get engu lofað. (Forseti hringir.) Stjórnarandstaðan segist vera með tryggingu fyrir meiri hluta í nefndinni, það verður svo að koma í ljós hvort svo sé.