135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

hlutdeild sveitarfélaga í skatttekjum.

9. mál
[14:35]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er út af fyrir sig alveg rétt. Ég sagði það í ræðu minni áðan að ég teldi að það sem skipti mestu máli væri einmitt að tryggja sveitarfélögunum fastar og öruggar tekjur, ekki nákvæmlega hvað tekjustofninn héti, en auðvitað verður líka að vera ákveðið réttlæti í því. Þess vegna hafa margir sveitarstjórnarmenn sérstaklega talað um fjármagnstekjuskattinn, jafnvel tekjuskatt lögaðila o.s.frv. En fyrst og fremst skiptir máli að sveitarfélögunum séu tryggðar tekjur í samræmi við þau verkefni sem þeim eru falin að lögum eða með öðrum stjórnvaldsákvörðunum.

Það má nefna — og kannski skiptir það miklu máli í þessu sambandi — að þótt það haldist í hendur eins og þingmaðurinn nefndi að þegar vel gengur hjá ríki geti gengið vel hjá sveitarfélögunum er skuldastaða þessara tveggja stiga mjög ólík. Skuldastaða ríkisins er lítil en sveitarfélögin bera miklar skuldir. Þau hafa vissulega tekið við verkefnum, ekki endilega frá ríkinu, heldur skuldbindingum sem ríkið hefur ábyrgst eða gengist fyrir, m.a. gegnum EES-samninginn, verkefnum sem hafa lent á sveitarfélögunum án þess að nokkrir tekjustofnar hafi fylgt. Nægir þar að nefna hina frægu fráveitutilskipun Evrópusambandsins sem hefur kostað sveitarfélögin í landinu 20 milljarða kr. án þess að nokkrir tekjustofnar hafi komið til fyrir því í raun nema einhver lítils háttar endurgreiðsla á virðisaukaskatti frá ríkinu vegna þessara framkvæmda. (Gripið fram í.) Já, 1 milljarður af þessum 20.

Halda menn að það telji ekki í sveitarsjóðum landsins þegar svona verkefni koma? Þetta er ekki eina verkefnið en þetta er vissulega stærsta verkefnið. Það telur að sjálfsögðu í sveitarsjóðunum þegar svona verkefni koma. Þarna tel ég að ríkið ætti að tryggja sveitarfélögunum tekjustofna til að standa undir skuldbindingum af þessu tagi, ekki vegna þess að sveitarfélögin vilji ekki taka við þessum verkefnum, því að þau eru mörg hver mjög mikilvæg eins og fráveitutilskipunin sannarlega varð, en það þarf að tryggja þeim tekjustofna til að sinna verkefnunum.