137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[16:01]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vandinn er sá bara að ég skil ekki þessa leið. Ég fæ ekki botn í þetta. Ég held að þessir peningar séu ekki þarna. Ég held að það séu engir duldir sjóðir inni í nýju bönkunum vegna þess að þeir hafi fengið eitthvað á lægra virði en raunverulega er og á lægra virði en líklegt sé að komi til baka frá þeim lánasöfnum sem þeir tóku yfir. (BJJ: Er ekki í lagi að skoða það?)

Væntanlega liggur það í hlutarins eðli og allir sjá að fasteignaveðlánin eru með allra tryggustu útlánum, þau eru yfirleitt metin verðmætust og sterkust í eignasafni fjármálastofnana. Það ættu menn að hafa í huga. (HöskÞ: En hafa rýrnað.)

Ég tek undir það með hv. þingmanni, ég held að það sé alveg hárrétt. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að það er ekki bara greiðslugeta fólks sem takmarkar þetta og er það sem ræður frekar en bókhaldsleg eignarstaða í augnablikinu, það er greiðsluviljinn líka. Það er mjög þreytandi að borga af lánum og sjá höfuðstólinn hækka og hækka. En það hafa Íslendingar gert áratugum saman.

Þegar ég keypti mína fyrstu íbúð 1983 á tímum mikillar verðbólgu og verðtryggingar lána borgaði ég og borgaði næstu árin og sá höfuðstólinn (Forseti hringir.) stanslaust hækka. (Gripið fram í.) Það er því ekki eins og það sé óþekkt fyrirbæri í okkar verðtryggða heimi sem (Forseti hringir.) kom til sögunnar með Ólafslögunum 1979, vel að merkja, hv. þingmaður.