139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

stækkun Reykjanesvirkjunar.

[15:12]
Horfa

Birgir Þórarinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil beina athyglinni að Suðurnesjum og því alvarlega ástandi sem þar ríkir. HS Orka sótti í desember 2009 um virkjanaleyfi vegna stækkunar Reykjanesvirkjunar. Orkustofnun hefur í tvígang hafnað leyfinu og kallar stöðugt eftir nýjum upplýsingum. Við þessu hefur HS Orka brugðist og meðal annars borað fleiri rannsóknarholur. Hafa ber í huga að hér er ekki um nýja virkjun að ræða heldur stækkun.

Rafall vegna stækkunarinnar kom til landsins í sumar, eða í júní, og ef virkjanaleyfi hefði verið afgreitt í sumar hefðu framkvæmdir við jarðvegsvinnu og stöðvarhús þá þegar getað hafist. Áætlað er að þessi framkvæmd taki um þrjú ár og á framkvæmdatíma skapar hún 600 ársverk eða 200 störf á ári. Það má því ljóst vera að ef ekki hefðu orðið óeðlilegar tafir á afgreiðslu leyfisins væru þarna um það bil 200 manns í vinnu í dag, 200 dýrmæt störf á Suðurnesjum. Þess í stað liggur rafallinn innpakkaður í skemmu engum til gagns eins og sóknarpresturinn í Keflavík gat réttilega um í útvarpspredikun.

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að tafir á leyfisveitingunni eru óeðlilegar. Þetta er staðreynd þó svo stjórnvöld haldi öðru fram. Orkustofnun hefði hæglega getað veitt leyfið með skilyrðum, t.d. heimilað framkvæmdir á meðan frekari rannsóknir færu fram. Nú hafa stjórnvöld sagt að þau hafi mikla samúð með atvinnuástandinu á Suðurnesjum og auðvitað verða menn að taka það trúanlega en þarna hefðu stjórnvöld hæglega getað liðsinnt og flýtt fyrir mikilvægum framkvæmdum. Það er enginn skaði skeður með því að veita skilyrt leyfi. Stjórnvöld hefðu getað haft öll tök á að stýra þessu en liðka um leið fyrir framkvæmdum og það er augljóst að stjórnvöld fóru ekki hófsama leið í þessu máli.

Ég vil því spyrja hæstv. iðnaðarráðherra: Hvers vegna var þessi leið ekki farin við að setja fyrirvara í leyfið til að liðka fyrir framkvæmdum þannig að þarna væru komnir 200 manns í vinnu?