139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

háskólamál.

[15:48]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrir þessa umræðu og sömuleiðis hæstv. menntamálaráðherra fyrir svör hennar. Þetta er ekki fyrsta umræðan sem við höfum tekið hér um framtíð háskólanna og verður svo sannarlega ekki sú síðasta.

Í ljósi þess niðurskurðar sem þarf að fara í horfum við fram á breytingar og að mínu mati þurfum að fara í mun meiri og ákveðnari breytingar en ráðherra hefur boðað hingað til. Í erlendu sérfræðinefndinni, sem fyrrverandi menntamálaráðherra skipaði, og þeirri skýrslu sem hún skilaði af sér komu fram mjög góðar og merkar ábendingar. Ég vil nefna tvær. Annars vegar þar sem talað var um að við þyrftum að leggja áherslu á þrjú meginsvið til framtíðar, þ.e. heilbrigðisgeirann og líta þá á hann mjög víðtækt, auðlindanýtinguna og þekkingu okkar á sviði nýtingar jarðvarma og jarðfræði, og síðan voru nefndar sérstaklega listgreinar. Því varð það mér mikið áfall að sjá að núna er verið að skera meira niður til raunvísinda en t.d. til viðskiptafræði en margir hafa einmitt bent á að það sé raunar offramboð á viðskiptafræðimenntun á Íslandi ef við horfum til framtíðar. Ég tel að við þurfum að taka þessar ábendingar mjög alvarlega.

Hins vegar vil ég líka taka undir að ákveðnu leyti ábendingar sem komu fram um sameiningar háskóla í þessari skýrslu. Ég tel að við þurfum að skoða það að fara í alla vega tvo til þrjá háskóla á Íslandi. Þá vil ég horfa til þess að það verði sérstakur opinber háskóli úti á landi, einn á höfuðborgarsvæðinu og síðan gætum við svo horft til sameiningar á einkareknu háskólunum. Samstarfsnetið eða samstarfið milli þessara skóla er ágætt svo langt sem það nær en ég tel að það komi að því að við þurfum að taka næstu skref. Ég er tilbúin til að koma að þeirri vinnu.