139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

háskólamál.

[16:08]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Já, ég þakka líka fyrir umræðuna. Hún hefði betur mátt vera tvöföld því að við hefðum getað sagt miklu meira um þessi mál. Ég vil nefna örfá atriði.

Við, hv. þingmenn, ræðum jafnvel róttækari stefnumörkun. Það má vel vera, ég held þó oft að góðir hlutir gerist hægt. Við verðum líka að átta okkur á því að við búum við ákveðið háskólasamfélag sem skiptir máli að taka tillit til. Allir þessir sjö háskólar, sem stundum er rætt um eins og þeir séu spegilmynd hver af öðrum, búa hver og einn að ákveðnu merkilegu starfi sem við þurfum að hafa í huga þegar við tökum stefnumótandi ákvarðanir. Ég lít svo á að vissulega eigi þessi þróun eftir að halda áfram, henni er ekki lokið, en við þurfum að vanda okkur í hverju skrefi.

Það eru ýmis mál sem við gætum rætt betur. Hv. þm. Skúli Helgason ræddi um samræmda gjaldtöku. Ég get nefnt sem dæmi að í Svíþjóð hefur reglan verið sú að þeir skólar sem njóta opinbers stuðnings, einkareknir eða ríkisreknir, taka ekki skólagjöld, svo dæmi sé tekið. Það er skilyrði þar í landi. Þetta er kannski eitthvað sem þyrfti að ræða eins og bent hefur verið á og ég lýsi mig fúsa til samræðna við hv. menntamálanefnd um þá stefnumótun eða hvert fólk vill stefna.

Ég átta mig líka á því og tek undir þær áhyggjur sem hafa verið viðraðar af Háskóla Íslands sem við, þ.e. stjórnvöld, höfum auðvitað líka. Ég held líka að samfélagið allt leggi ríkar kröfur á að tekið verði við nemendum, ekki síst núna þegar atvinnuástand er slæmt. Staðreyndin er sú að háskólinn fær ekki greitt fyrir alla þessa nemendur, það eru u.þ.b. 1.100 nemendur sem ekki er greitt fyrir, og það er auðvitað áhyggjuefni. Höfum við forsendur til að bæta það að einhverju leyti eða mun háskólinn þurfa að taka upp einhver skilyrði eða takmarkanir, meiri en þær sem nú þegar eru? Þetta er spurning sem erfitt er að takast á við við núverandi efnahagsástand. Háskólarnir hafa tekið á sig mikinn niðurskurð og gera enn í þessu fjárlagafrumvarpi. Það er von mín að hann muni ekki þurfa að verða meiri og helst hefði maður viljað sjá ákveðna hluti ósnerta þó að þeir fái lágan niðurskurð, (Forseti hringir.) eins og rannsóknarsjóðirnir. En ég vonast til að þessi stefnumörkun hjálpi skólunum að viðhalda starfi sínu þrátt fyrir þennan niðurskurð.