140. löggjafarþing — 14. fundur,  20. okt. 2011.

leiðréttingar á höfuðstól íbúðalána og minna vægi verðtryggingar.

16. mál
[12:54]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að stjórnvöld eigi að hlusta eftir öllum raunhæfum og málefnalegum tillögum sem koma fram um það að leiðrétta skuldastöðu heimilanna enn frekar en orðið hefur. Vissulega hafa allir, bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar, verið mjög hugsi yfir því hvaða leiðir væru farsælastar í því og hvaða leiðir væru raunverulega færar. Skýrsla endurskoðunarnefndar sem skilaði áliti til efnahags- og viðskiptaráðherra nýlega vekur ýmsar spurningar og áhyggjur, sérstaklega um það hvernig bankarnir hafa staðið að framkvæmdinni við skuldaleiðréttinguna. Ég tek hins vegar ekki undir það að sú niðurstaða sé áfellisdómur fyrir ríkisstjórnina því að það er ekki hægt að kenna ríkisstjórninni um það hvernig bankarnir fara að þeim lögum sem samþykkt eru á Alþingi.

Ég er mjög hugsi yfir þessu öllu, veit að hv. þingmaður er hagfræðimenntaður og mig langar því til að spyrja hv. þingmann: Hvaða leiðir telur hún færar til þess hugsanlega að endurstilla vísitöluna og koma þaki á verðtrygginguna? Eru færar fleiri leiðir en ein í því? Hvaða afleiðingar telur hún, ef einhverjar, að það gæti haft fyrir annars vegar hagkerfið og hins vegar bankana og þar með keðjuverkun á almenning í landinu, ekki bara skuldara? Þetta eru hreinlega faglegar spurningar sem mér þætti vænt um að heyra álit þingmannsins á í ljósi þess að þingmaðurinn er hagfræðingur. Ég tek það fram að þær eru bornar upp af algjörlega opnum huga og án pólitískrar undirhyggju.