141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

lífeyristökualdur.

95. mál
[16:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kem upp í pontu Alþingis til að ræða um lífeyristökualdur hér á Íslandi.

Margar aðrar Evrópuþjóðir hafa fjallað mjög um þetta mál á undanförnum missirum og þá af tveimur ástæðum. Það kostar sitt að halda úti lífeyri fyrir fólk á sjötugsaldri, 61, 62, 65 eða 67 ára, eins og er mjög víða í Evrópu. Þar er lífeyristökualdur víða lægri en hér á landi, en engu að síður þurfum við Íslendingar að taka þátt í þessari umræðu málefnalega og af einurð. Það er ekki einungis að ríkissjóður standi frammi fyrir miklum og auknum vandamálum vegna þessa — nægir þar að nefna A- og B-deild Lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna, B-deildin skuldar um 400 milljarða og A-deildin á fimmta tug milljarða ef ég man rétt — heldur eru þessi mál íhugunarefni sveitarfélaga víða um land.

Ef kostnaðinum sleppir er það nú einu sinni svo að íslenska þjóðin er blessunarlega að eldast. Fólk sem er á sjötugsaldri er margt hvert við hestaheilsu og kýs að verja auknum hluta ævi sinnar á vinnumarkaði. Þessi umræða svarar því kalli og eðlilegt að velta fyrir sér stefnu stjórnvalda á hverjum tíma í þessum efnum.

Þetta er vitaskuld viðkvæmt mál eins og blasir við þegar rætt er um það víðast hvar í Evrópu en efnt hefur verið til mikilla mótmæla vegna ákvörðunar um að hækka lífeyristökualdur. Af tveimur ástæðum þurfum við að ræða þessa hluti hér á Íslandi, annars vegar vegna kostnaðarins, sem er mikill og blasir við sem risavaxið vandamál sem við veltum á undan okkur, og hins vegar sakir þess sem ég nefndi áðan að aldur þjóðarinnar er að hækka, sem er vel. Margir vilja leggja sitt af mörkum til samfélagsins í formi vinnu fram til sjötugs ef ekki lengur, enda er heilsa þjóðarinnar að batna til muna. Fleiri geta því lagt sitt lóð á vogarskálar atvinnulífsins en var á árum áður þegar menn voru orðnir gamlir og þreyttir um fimmtugt.

Nú er öldin önnur. Við blasir þetta umræðuefni sem almenningur þarf að fá svör við. Ég spyr því (Forseti hringir.) hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort þetta hafi verið rætt innan raða ráðuneytisins. Ég spyr hvaða leiðir eru færar í þeim efnum.