143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

þingsköp Alþingis.

69. mál
[11:49]
Horfa

Flm. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir að hafa lagt orð í belg um frumvarpið. Ég vil taka það skýrt fram, ef það var ekki ljóst í framsögu minni, að ég er líka þeirrar skoðunar að umrætt ákvæði eigi að vera í stjórnarskrá. Hins vegar lít ég á þessa tillögu sem milliskref vegna þess að það er flókið og erfitt mál — það þarf svo sem ekki að vera mjög erfitt en það er flókið og tekur tíma að breyta stjórnarskránni og þess vegna er frumvarpið lagt fram sem skref í áttina, sem millibil.

Ég er mjög fegin því að menn líta ekki á þetta sem stórhættulegt tilræði við stjórnskipun landsins. Ég geri það ekki heldur og sagði í framsögu minni, eins og aðrir hafa tekið fram hér, að þetta er lítið skref, en lítið skref er tákn. Það er táknrænt, ég er þeirrar skoðunar og ég er bara á öndverðri skoðun við hv. þm. Birgi Ármannsson þar um að þetta muni ekki hafa áhrif. Ég veit að þetta hefur ekki nein stórbrotin, stórkostleg áhrif en ég tel að þetta muni hafa áhrif.

Ég tel að í umræðunni hafi í rauninni verið farið í gegnum öll helstu álitamál í þessu máli. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kom fyrst inn á það og hv. þm. Birgir Ármannsson síðar um þetta misvægi á þingi, þann galla sem menn segja að sé á frumvarpinu, að þegar ráðherrar víki úr þingsæti sínu fái þeir sem eru í stjórn meiri liðsauka. Sannast að segja er það nú staðreynd máls að ráðherrar eru ekki mikið hér á þingi. Ég hugsaði til dæmis um það í morgun hvað væri að gerast þegar ráðherrar streymdu hér allt í einu í þingsalinn. Þá áttaði ég mig á því, jú, það var atkvæðagreiðsla. Annars eru ráðherrar hér yfirleitt ekki nema þegar þeir eru með sína málaflokka og það mundi vissulega halda áfram. En það gæfi, og það er það sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson kom inn á, þ.e. að þegar litlir, minni stjórnmálaflokkar eru í ríkisstjórn og þurfa að sinna — ekki þurfa, ég vil ekki nota það sem neikvætt orð — en sinna þingstörfum, sinna setu í þingnefndum o.s.frv. þá verður álagið á þá þingmenn sem ekki eru ráðherrar mjög mikið. Ég held að færa megi rök að því að það sé næstum því ómannlegt hvað lagt getur verið á menn að þurfa að fylgjast og rýna í frumvörp sem koma fram. Ef þetta væri þannig að menn hefðu fullan tíma mundi það gerast í meira mæli, meira að segja en var á síðasta þingi, að þingið breytti stjórnarfrumvörpum sem fram koma.

Ég vil líka geta þess í sömu andrá að þegar við lítum yfir söguna einhvern tíma, hvenær sem það verður gert, komi það í ljós að á síðasta kjörtímabili var mikil breyting að því leytinu til að gerðar voru miklu meiri breytingar á stjórnarfrumvörpum en áður hafði þekkst. Ég tel það til hins góða. Ég hef heyrt hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, sem var ráðherra, segja: Frumvörp sem ég lagði fram og var búin að liggja yfir, þeim var breytt. Hún sagði réttilega: Ég var kannski ekki alltaf nákvæmlega sammála öllum breytingum en það var til hins góða, fleira fólk var búið að liggja yfir þeim og skoða heldur en bara embættismenn og ráðherrar.

Þetta skiptir máli og það kemur fram í skýrslunum um þau ósköp sem stjórnarhættir undanfarinna ára fyrir árið 2008 leiddu til, að það þarf betri vinnu á þinginu og meira eftirlit þarf með framkvæmdarvaldinu. Það þarf að vera aðskilnaður á milli þessara þátta og ég held að þetta litla frumvarp, þetta litla skref sé í áttina að því að við tökum upp betri stjórnarhætti hér á Íslandi. En ég er mjög fegin því að enginn telur að þetta sé tilræði við stjórnskipun landsins.