143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

landsnet ferðaleiða.

122. mál
[12:47]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég vil taka undir þetta mál sem ég er sjálf skrifuð fyrir. Mér finnst við hafa eiginlega sofið á verðinum, sérstaklega þegar kemur að hjólreiðaferðamennsku. Þar eru gríðarleg tækifæri og við erum með vegi hingað og þangað um landið sem eru jafnvel ekki lengur notaðir eins og gamli vegurinn í Öxnadal. Þar trítla kindur um, en þeim sem eru hjólandi er ekki beint á þann veg sem væri mjög einfalt því þeir eru á þjóðvegi 1 innan um ökumenn sem keyra jafnvel á 100 km hraða á klukkustund. Við nýtum ekkert þessa gömlu vegi.

Mörg sveitarfélög sem hafa hug á að setja stíga, t.d. í kringum Mývatn inn á Hrafnagil frá Akureyri, eiga í smábasli með það vegna þess að Vegagerðin þarf að koma að því að setja upp stíga við þjóðveginn.

Mér finnst við eigum að gera út á eða skoða vandlega sérstaklega reiðhjólaferðamennsku. Það er t.d. eitthvað sem Borgundarhólmur hefur gert og beinlínis gerir út á, að fá til sín ferðamenn sem eru hjólandi. Það sprettur upp alls konar iðnaður í kringum það að þjónusta slíka ferðamenn.

Ég vona því að þessi góða þingsályktunartillaga fái jákvæða meðferð í nefnd.