144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

gagnasafn RÚV.

60. mál
[16:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Ég fagna þeim tóni sem mér fannst ég heyra hjá hæstv. ráðherra og ég þakka honum fyrir svörin. Mig langar að spyrja hvar hægt sé að finna þá áætlun sem ráðherra nefndi. Mig langaði að benda ráðherra á að þegar fram fór uppfærsla á fréttavef RÚV fyrir nokkrum árum hurfu allar fréttir af netinu sem voru eldri. Þetta voru meðal annars fréttir frá tímum hrunsins og mjög bagalegt því að þeir sem höfðu verið að sækja sér heimild í þessar fréttir, höfðu jafnvel sett slóðir í þær, sátu uppi með enga heimildaskrá.

Ég spurði þáverandi útvarpsstjóra út í það mál. Hann var ekki meðvitaður um að stór hluti fréttavefs RÚV hefði horfið við þessa uppfærslu en mér sýnist þetta enn þá vera í ólagi. Mig langar til að biðja hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að þessu verði komið í lag. Þarna erum við að tala um samtímaheimildir sem hafa verulega mikið gildi fyrir þjóðina.

Mig langaði að nefna að jafnvel mætti í samningsviðræðum um höfundarétt á gömlu efni — nú veit ég að verið er að vinna í löggjöf sem varðar höfundarétt og fjallar um munaðarlausan höfundarétt — leggja til að vera með svokallað CC á því, við þá sem eiga höfundarétt. Það er mjög mikilvægt að fólk hafi aðgengi að menningarlegum verðmætum. Svo er það að sjálfsögðu rétt að fréttir eru ekki höfundavarðar og mig langar að spyrja hvort ekki sé rétt að beita sér fyrir því að fréttir séu lengur til, og þættir frá Rás 1 til dæmis, en tvær eða fjórar vikur eins og er í dag.