144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

uppbygging á Kirkjubæjarklaustri.

46. mál
[17:12]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að vekja máls á þessu. Það er kannski svolítið vandræðalegt fyrir þingmann úr þessu kjördæmi að hafa ekki gert það frekar sjálfur.

Nú er þriðju kjördæmaviku minni sem þingmanns nýlokið. Ég hef alltaf farið í Skaftárhrepp og þar er þetta mál alltaf fremst á dagskrá hjá sveitarstjórnarmönnum og fólki þar. Þessu máli þarf að kippa í liðinn og það strax. Fram hefur komið að gríðarlega mikil vinna liggur að baki þessu þekkingarsetri hjá heimamönnum. Það kom út skýrsla frá Byggðastofnun 2012 þar sem stendur að það þurfi að taka ákvörðun um svona byggðarlög, hvort þau eigi að lifa eða ekki. Ef þau eiga að lifa þurfum við að hjálpa þeim. Þetta er einn liður í því ásamt fjarskiptum og ljósleiðaravæðingu, þetta er lykilatriði fyrir sveitarfélag eins og Skaftárhrepp ef það á hreinlega að lifa. Það kom skýrt fram hjá sveitarstjórnarfólkinu núna að þannig er það.

Ég bind vonir við þennan starfshóp og vona að hann skili góðu verki.