144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

matarsóun.

47. mál
[17:31]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna þessari fyrirspurn og svari ráðherra og taka undir með þeim sem hér hafa talað um mikilvægi þess að við breytum viðhorfi að þessu leyti. Það er mikilvægt umhverfismál, það er sömuleiðis mikilvægt lýðheilsumál.

Ég vil nota þetta tækifæri til að taka vara við því að við nálgumst þetta verkefni á einhvern hátt út frá því að það að rýmka notkun matvæla eigi að vera fyrst og fremst til hagsbóta eða ábata fyrir þá sem þiggja matargjafir eða annað slíkt. Ég held að það sé mjög öfugsnúin hugsun, ég held að það skipti máli að við öll áttum okkur á því að það getur verið áhættulítið og hollt og gott fyrir okkur að neyta matvæla jafnvel þótt þau séu komin fram yfir einhverjar merkingar, en að við förum ekki að falla í þá freistni að búa til tvöfalt kerfi (Forseti hringir.) og líta svo á að matvæli sem komin séu á dagsetningu séu á einhvern hátt þannig að þau eigi fara til þeirra sem minna hafa á milli handanna.