148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:34]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það eru nokkur atriði sem mig langar að spyrja hann um. Ég er sérstakur áhugamaður um Alþingi. Mér finnst mikilvægt að Alþingi virki vel. Ég veit að við hv. þingmaður höfum ekki alltaf verið sammála um hvernig eigi að gera það og ég þurfti stundum að eltast við hann hér sem þingmaður þegar hann var ráðherra sjálfur og hafði ekki mikinn áhuga á að vera í þingsalnum eða taka þátt í störfum Alþingis. Það var alveg sérstakt viðfangsefni að kalla eftir honum, þá forsætisráðherra, til að eiga orðastað við Alþingi eða virða það viðlits ef því var að skipta.

Ég vil spyrja hv. þingmann sem er núna í annarri stöðu og þykir væntanlega aðeins meira til um að Alþingi virki en honum þótti þá: Hvernig telur hann best að auka veg Alþingis og styðja við löggjafarstarfið og stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu? Ég held að öllum sé ljóst sem hafa fylgst með stjórnmálum að þarna hefur orðið viðsnúningur í afstöðu hv. þingmanns til þessa.

Hv. þingmaður notar mikið orðalag eins og það að hann og hans flokkur séu með bestu tillögurnar og eiginlega þær einu og aðrir séu með enga sýn og ef einhverja, þá vitlausa. Ég held að þessi tegund af orðræðu sé ekki nákvæmlega sú sem er best til þess fallin að finna góðar niðurstöður í málum. Ég vil hins vegar spyrja hann hvort hann muni ekki eftir því þegar gerð var úttekt á staðsetningu Landspítala árið 2015, þegar hann sjálfur var forsætisráðherra, og þegar Alþingi afgreiddi þingsályktunartillögu um þá staðsetningu og þegar sú afstaða var fest í sessi undir hans forsæti þegar Alþingi komst að niðurstöðu í fjárlagafrumvarpinu á því ári, um að undirbúa uppbyggingu Landspítala á þeim stað.