148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[17:06]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra, tíminn er knappur en við reynum áfram. Staðreyndin er sú að þau fjárlög sem samþykkt voru hér fyrir áramót — og það mátti sjá í flestum umsögnum — skapa hættu á hærra vaxtastigi og sterkara gengi en ella. Það kom mjög skýrt fram í umsögnum flestra sérfræðinga. Það grefur aftur undan samkeppnisstöðu þeirra útflutningsgreina, eins og tækni- og sprotafyrirtækja, sem ég vísaði til hér áður. Staðreyndin er sú að á sama tíma og við höfum séð mikinn og kröftugan vöxt í ferðaþjónustu er engan útflutningsvöxt að ráði að finna hjá tækni- og sprotafyrirtækjum, hvort heldur sem er í þjónustuliðnum eða vöruútflutningi. Það er napurleg staðreynd sem við höfum horft upp á á undanförnum fjórum árum og áfram virðist eiga að stuðla að því sama.

Í tíð fyrri ríkisstjórnar var þetta töluvert áhyggjuefni og horft t.d. til einföldunar á virðisaukaskattskerfi og tilfærslu ferðaþjónustu upp í efra þrep sem efnahagsaðgerðar en ekki skattaaðgerðar, þ.e. að allur almenningur gæti notið góðs af lægri virðisaukaskatti (Forseti hringir.) en ella meðan samkeppnisstaða ferðaþjónustunnar væri jöfnuð í ljósi þess að hún virtist þrengja mjög að öðrum útflutningsgreinum sem ekki hafa vaxið á sama tíma. Það er þess vegna sem ég velti þessu fyrir mér.