148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[17:42]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni í því að ýmislegt má gera betur í innanlandsfluginu. Ég held að nánast sé hægt að fullyrða að fáir ef nokkrir séu ánægðir með þjónustuna sem þar er veitt. En um leið eru gríðarleg tækifæri. Það þarf vissulega talsverða fjármuni og ég treysti á að það verði hljómgrunnur fyrir því í þinginu þegar við leggjum slíkar tillögur fram, m.a. um skosku leiðina sem er stuðningur við almenningssamgöngur fyrir íbúa landsbyggðarinnar. En ekki síður þarf aukið fé til viðhalds á þessum flugvöllum. Við erum kannski ekki að tala um neinar stjarnfræðilegar tölur en við erum engu að síður að tala um nokkur hundruð milljónir á ári til að það sé ásættanlegt. Ég held að tækifæri séu fólgin í þessu. Við í ráðuneytinu höfum verið að skoða mál er varða t.d. Akureyrarflugvöll og ég treysti því að þar verði unnið eins hratt og hægt er (Forseti hringir.) til að leysa úr þeim vandkvæðum sem uppi eru. Það hefði vissulega verið heppilegra ef það hefði verið gert áður en við þurfum bara að taka á þeim vanda eins og hann er í dag og reyna að gera eins vel og hægt er eins fljótt og hægt er.