149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[14:55]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra talaði um að þetta frumvarp ætti að taka af annmarka á lögum um fiskeldi. Ég held að það muni taka miklu lengri tíma. Við eigum alveg eftir að ræða fiskeldið í stóra samhenginu. Ég skil hins vegar af hverju málið er komið fram og átta mig á að það þarf með einhverju móti að bregðast við.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hægt hefði verið að fresta áhrifum úrskurðarnefndarinnar með öðrum hætti. Mér sýnist að í 5. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé talað um að úrskurðarnefndin hafi heimild til að fresta áhrifum. Í greinargerð er líka talað um það. Mig langar að heyra aðeins álit ráðherra á því.

Einnig segir í síðustu setningu úrskurðarins sjálfs, með leyfi forseta, að taki Matvælastofnun enn fremur ákvörðun um að stöðva starfsemi rekstraraðila samkvæmt 21. gr. c laga nr. 71/2008 sé sú stjórnvaldsákvörðun kæranleg til ráðherra samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna sem getur eftir atvikum frestað réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar.

Felst ekki í þessu heimild ráðherra, að teknu tilliti til þess að svona sé að málum staðið, til að gera þetta bara án þess að við samþykkjum þetta frumvarp hér?