149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[15:00]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur hans nálgun á málið. Úrskurðarnefndin er algjörlega sjálfstæð stjórnsýslunefnd. Hennar úrskurðir standa og þeim verður ekki áfrýjað. Ef menn eru í ágreiningi um túlkun og niðurstöðu nefndarinnar þá er mál einfaldlega rekið fyrir dómstól og ráðuneytið hefur hvorki vilja né heimildir til þess að grípa inn í það. Hún hefur sinn sjálfstæða rétt og leggur þetta niður með þessum hætti.

Ég kann ekki skil á því hver staðan verður ef niðurstaðan verður sú að úrskurðurinn fyrir dómstólum verður látinn standa. Ef ekki er búið að bæta úr þeim ágöllum sem eru á stjórnsýslulegum þætti leyfisumsóknanna þá vænti ég að dómstóll muni komast að svipaðri niðurstöðu. Þetta vekur hins vegar upp spurningu sem er líka nauðsynlegt að spyrja, hvað gerðist ef dómstóll kæmist að annarri niðurstöðu, þ.e. væri ekki sammála úrskurðarnefndinni. Í hvaða stöðu eru menn þá, búnir að loka sjoppunni eins og sagt er? Þá situr ríkið bara uppi með skaðabótaábyrgðina af því.