149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[15:07]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér erum við með stöðu sem að allra mati sem hafa farið inn í málið krefst einhverra viðbragða af hálfu stjórnvalda. Þau liggja hér fyrir í formi frumvarps. Vissulega afmarkað, en er almenn heimild fyrir ráðherra viðkomandi málaflokks til að bregðast við stöðu sem þessari.

Skil ég hv. þingmann þannig að við eigum að bíða með að taka á þeirri stöðu þar til umhverfisráðherra gefur eitthvað út um það hvernig hann ætlar að taka á málunum sín megin? Ég sem ráðherra og ábyrgðarmaður þessa málaflokks er að fara fram á það við þingið að ráðherra málaflokksins verði gefin heimild til þess að byrja að takast á við það verkefni sem bíður þingsins hvort eð er. (ÞKG: Hvað ætlar umhverfisráðherra að gera?) Ég svara ekki fyrir umhverfisráðherra, hv. þingmaður. (ÞKG: Stoppar hann málið?) Ég get ekki svarað fyrir hann.