149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[16:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er spurning hvort ekki þurfi að kynna þetta mál enn betur fyrir þingmönnum ef þeir eru þar staddir að telja að þetta mál snúist um umhverfismál. Þetta mál snýst ekki um umhverfismál. Þetta mál er mjög einfalt. Það snýst um að þeir formgallar voru í skýrleika í umsóknar- og leyfisferlinu að ekki var bent á aðra valkosti við sjókvíaeldi.

Það hefur komið fram að þegar viðkomandi fyrirtæki fóru í gegnum mat, frummatsferli sem þau þurftu að skila fyrir Skipulagsstofnun, var greint frá því að þau hefðu rökstutt hvers vegna þau bentu ekki á aðra valkosti. Þeir væru óraunhæfir og ekki framkvæmanlegir við þessar aðstæður í dag en kannski í náinni framtíð. Við höfum fengið stofnanir eins og Skipulagsstofnun til þess að halda utan um framkvæmd á mati á umhverfisáhrifum. Treystum við ekki þessum stofnunum? Ég treysti Skipulagsstofnun til þess að gera það. Hún fór í gegnum allt þetta ferli með viðkomandi fyrirtækjum og fór yfir umhverfismat þeirra og gaf rekstrarleyfi.

Ég treysti Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Matvælastofnun, öllum þessum stofnunum, til að hafa gætt þess að gefa ekki neinn afslátt af umhverfisþætti þess sjókvíaeldis sem starfsleyfin voru byggð á. Og voru felld vegna þess formgalla að ekki hafi verið að mati úrskurðarnefndar bent á fleiri valmöguleika sem í raun eru óraunhæfir. (Forseti hringir.) Við eigum að gæta meðalhófs, líka í málflutningi í þessu máli.