149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[16:14]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem aðallega til að gera athugasemd við það að hv. þingmaður skuli líkja stofnunum sem eru mikilvægar samfélaginu, og eru vissulega sumar með höfuðstöðvar í Reykjavík, við stormsveitir nasista sem stóðu að miklum morðum og ódæðum í seinni heimsstyrjöld. Mér finnst það ósmekklegt þar sem annað er lagalaus skríll sem drap fólk og hitt eru stofnanir sem eru mikilvægar samfélaginu og voru stofnaðar til að framfylgja lögum sem voru sett í þessum sal. Mér þykir full ástæða til að biðja hv. þingmann um að draga þau tilteknu orð til baka svo að við getum rætt málið á eðlilegum grundvelli.

Það er mikilvægt að við sýnum stofnunum ákveðna virðingu jafnvel þótt við séum ósátt við niðurstöðurnar sem þær komast að. Það er vissulega verið að skapa ákveðin vandamál á sunnanverðum Vestfjörðum, sem við heimsóttum með atvinnuveganefnd fyrir stuttu, og auðvitað er mikilvægt að við lögum þau vandamál en það er ekki ásættanlegt að gera með upphrópunum og nafnaköllum.