151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

kostnaður í heilbrigðiskerfinu.

[10:59]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Herra forseti. Ég hlustaði á orðaskipti sem hæstv. fjármálaráðherra átti við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson fyrr í vikunni um kostnað og álag í heilbrigðiskerfinu. Ég upplifði þá svör fjármálaráðherra sem nokkur pólitísk tíðindi, rétt eins og formaður Miðflokksins gerði. Ríkisstjórnin hefur stundað það að senda fólk til útlanda í aðgerðir sem auðveldlega er hægt að framkvæma hér heima af sjálfstætt starfandi læknum fyrir langtum minna en kostar að senda þetta fólk út. Nú liggur fyrir að Landspítalinn þarf að fresta aðgerðum vegna Covid og þá er viðbúið að biðlistar lengist. Að senda fólk út með þessum hætti er allt að þrefalt dýrara fyrir heilbrigðiskerfið, felur í sér óþægindi og óhagræði fyrir sjúklinga og ég bendi á kolefnissporið. Kostnaðurinn felst í því að borga fyrir flug, borga fyrir gistingu, greiða dagpeninga og stundum uppihaldskostnað fylgdarmanns. Ég viðurkenni að ég fylltist bjartsýni þegar ég hlustaði á orð hæstv. fjármálaráðherra í þessari umræðu því að hann sagði um þetta, með leyfi forseta:

„Ég tel að það sé alltaf rétti tíminn til að fara vel með peningana og tel að alveg óháð þessum kórónuveirufaraldri sé það almennt góð ráðstöfun að semja við þá sem geta verið sveigjanlegir og hagkvæmir í að veita þessa opinberu þjónustu, þjónustu sem er fjármögnuð af opinberu fé.“

Mig langar því til að fylgja samtali þeirra tveggja eftir og spyr í kjölfar þessara orða hæstv. fjármálaráðherra hvort þess sé að vænta að hann muni beita sér fyrir breytingum núna, hvort ekki sé einhugur um að nú hljóti að vera aukin krafa um að fara betur með almannafé í ljósi ástandsins og hvort fjármálaráðherra telji að hægt sé að réttlæta að þessi framkvæmd viðgangist áfram við núverandi aðstæður.