151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

eftirlit með innflutningi á búvörum.

[11:23]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Umræða um ostlíki er ekki ný í íslenskri pólitík. Ég hygg að hæstv. forseti Alþingis hafi gegnt embætti landbúnaðarráðherra þegar kom upp umræða um ostlíki á pitsur árið 1991. En einmitt þess vegna er það ábyrgð okkar stjórnmálamanna að vera sérstaklega vakandi yfir þessu máli, að vita sem er að það þarf að gæta að mörgu, sérstaklega hér, sem þarf kannski ekki í öðru. Ég hef sagt það bæði hér og annars staðar, bæði í núverandi starfi mínu og áður en ég fór að gegna því, að mér hefur þótt sem Ísland sé eitt af örfáum löndum í heiminum sem líti ekki á tollkvóta sem verðmæti, því að það gera öll lönd. Þau setjast niður og semja um tollkvóta, semja um inn- og útflutning og hugsa um þetta sem verðmæti.

Mér hefur þótt aðeins skorta á þetta í utanríkisstefnu Íslands síðustu ár og áratugi, einmitt vegna þess að þetta hefur áhrif á stöðuna innan lands. Þegar kemur að tollasamningum og viðskiptasamningum sem við gerum er borin von að þeir hafi í raun það vægi sem þeim er ætlað að hafa ef eftirlitið með þeim er ekki nægilegt, ef þeir ganga ekki smurt fyrir sig.

Þess vegna er ég ánægður með að það eigi að skoða í grunninn hvernig staðan er í þessum málum. Ég er ánægður með að við ætlum að skoða hvernig framkvæmd tollsins er og mér finnst að niðurstaðan eigi að vera sú að ef eitthvað skortir upp á, fjármuni, mannafla, eða hvað það er, þá eigum við að einhenda okkur í það verk að bæta stöðuna þar. Við þurfum að koma þessum málum inn í 21. öldina þannig að við séum ekki að fylla út innflutningsskýrslur með kúlupenna á pappír og svo eru reglurnar þannig í dag að meira að segja máttu bara endurskoða pappírsinnflutningsskýrslur 60 daga aftur í tímann en rafrænar mun lengur. Það er augljóst að það þarf að tryggja eftirlitið og allt umhverfi í kringum þetta mun betur og það er gott að við ætlum að fara að stíga inn í 21. öldina með þetta.