151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

39. mál
[14:18]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér hefur aðeins verið talað um öryggismál tengd flugvellinum. Sú umræða er dálítið merkileg og að sjálfsögðu er þetta eitthvað sem við þurfum að hafa í huga og klára á góðan hátt. En öryggið hefur líka verið tengt Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi. Við skulum hafa í huga að það tók um 20 ár frá því að ákveðið var að reyna að byggja nýjan spítala þar til loksins var byrjað á nýjum spítala, m.a. af því að fyrstu niðurstöður úr staðarvalsgreiningu virtust ekki henta. Niðurstaðan var ekki sú sem fólk vildi. Niðurstaðan var: Ef ekki einhvers staðar annars staðar en í Fossvoginum eða þar sem Landspítalinn er núna, þá a.m.k. ekki þar sem Landspítalinn er núna því að aðgengi og ýmislegt er frekar flókið. Það er ákveðið öryggismál varðandi umferð og aðgengi að spítalanum. Niðurstaðan varð sem sagt: Ef ekki einhvers staðar annars staðar en á þessum tveimur stöðum, þá frekar í Fossvoginum. Það þurfti að fara út í fleiri kannanir á þessu, staðarvalsgreiningar o.s.frv. Þá bættust við atriði sem nefndin átti að taka tillit til við staðarvalsgreiningu. Þar átti að meta nálægð við háskólann og miðbæinn hátt. Ekki öryggissjónarmið, heldur nálægð við háskólann og miðbæinn. Það er ákveðin þægindanánd og nálægð við háskólann, af því að þetta er háskólasjúkrahús, er vissulega mikilvæg. En það er ekki um öryggissjónarmið að ræða. Þetta er áhugavert í samhengi við flugvallarumræðuna. Það er alltaf verið að nota nálægðina við flugvöllinn sem rök fyrir ákveðnu öryggissjónarmiði þrátt fyrir að spítalinn sé núna þar sem hann er ekki út af öryggissjónarmiðum. Það er svolítið merkilegt.

Ég kom inn á það atriði í andsvari við hv. þm. Njál Trausta Friðbertsson að það er öryggismál að byggja spítala hátt frekar en breitt, það er annar hraði þegar þarf að koma fólki á milli nauðsynlegra staða þegar farið er upp og niður frekar en á milli bygginga fram og til baka og út um allt og jafnvel líka upp og niður hæðir. Þá spilar þetta tvennt ekkert svo rosalega vel saman, flugvöllur og spítali, af því að ekki er hægt að byggja hátt nálægt flugvelli. Það er meira að segja verið að kvarta undan því að trén í Öskjuhlíðinni séu orðin of há fyrir flugvöllinn í Vatnsmýrinni, sem er stórkostlegt. Ef flugvöllurinn í Vatnsmýri þolir ekki tré af eðlilegri hæð eins og þau vaxa náttúrulega þá erum við með aðeins meiri vandamál með staðsetninguna á þessum flugvelli en við gerum okkur kannski grein fyrir.

Ég vil því segja að þegar verið er að spyrða þetta mál saman við öryggi þá stenst það einfaldlega ekki skoðun, sérstaklega ekki þegar talað er um öryggi og það hafi með nálægð við spítalann að gera.

Almennt séð er ég mjög hlynntur því að mál séu sett í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekkert að því. En það þarf hins vegar að huga að ákveðnum grundvallarhugmyndum um sjálfstæði sveitarfélaga, skipulagsvald þeirra og hvert hlutverk þjóðaratkvæðagreiðslna er. Spurningin, eins og hún kemur fram í þingsályktunartillögunni, gengur einfaldlega ekki upp. Ef niðurstaðan verður já, sama við hvaða sveitarfélag þessi þjóðaratkvæðagreiðsla ætti, er einfaldlega hægt að halda íbúakosningu um málefni sem varða sveitarfélagið og segja bara: Nei. Öll þjóðin getur ekki sagt einu sveitarfélagi, sama hvaða sveitarfélag sem það er, til um skipulagsmál þess. Þess vegna er það í höndum þingsins og ríkisstjórnarinnar að eiga í samræðum við sveitarstjórnarstigið um hin ýmsu mál, t.d. staðsetningu flugvallar. En þegar allt kemur til alls þá geta íbúar bara sagt: Nei, þetta gengur ekki alveg, við samþykkjum þetta ekki svona. Við viljum ekki svona bæ eða borg eða hvernig sem það er.

Það er fullt af ástæðum fyrir því, heill hellingur af ástæðum fyrir því, sem eru mjög oft raktar í ræðum hér á þingi um hversu mikilvægt það er að hafa sjálfstæð sveitarfélög og að skipulagsvald þeirra og sjálfsákvörðunarvald sé virt. Það er meira að segja svo að í sveitarstjórnarlögum er miklu ríkari möguleiki á lýðræði en fyrir þingið þar sem það eru ákvæði í sveitarstjórnarlögum um að 20% íbúa geti einfaldlega kallað til kosninga, bindandi kosninga. Það er ekkert svoleiðis fyrir þingið, ekki fyrr en með nýrri stjórnarskrá. 20% íbúa finnst mér meira að segja vera nokkuð hátt.

Það vekur athygli mína, af því að það var vissulega, eins og hv. flutningsmaður kom inn á, atkvæðagreiðsla árið 2001 um flugvöllinn í Reykjavík og meiri hluti þeirra sem greiddu þar gilt atkvæði sögðu að hann ætti að fara burt. Munurinn var mjög lítill. Ég hefði alveg viljað meira og lengra samtal um það og ég skil alveg að það sé flókið þegar munar svona litlu en niðurstaðan er eins og hún var. Það hefði kannski átt að fara í lengra samtal um þetta og kannski hefur verið tekið lengra samtal um þetta og þess vegna er hann loksins að fara núna svona löngu eftir að niðurstaðan fékkst. Kannski er það líka þess vegna sem þeir sem vilja halda flugvellinum á þeim stað þar sem hann er safna ekki undirskriftum í Reykjavík, reyna ekki einu sinni að ná þessum 20% undirskrifta sem þarf til að halda atkvæðagreiðslu. Þeir gætu gert það ef stuðningurinn við að halda flugvellinum áfram í Vatnsmýrinni er svona mikill. Ég skil ekki af hverju það er alla vega ekki reynt að fara löglegu leiðina. En ég sé ekki að það hafi verið reynt nema að niðurstaðan 2001 hafi einmitt verið afrakstur þess og síðan hafi fólk ekki viljað láta reyna á það aftur, því að það eina sem endurskrifar íbúakosningu eða þjóðaratkvæðagreiðslu er önnur íbúakosning eða þjóðaratkvæðagreiðsla, hvort sem á við. Varðandi sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga er það íbúakosning en þjóðaratkvæðagreiðsla getur aldrei komið og troðið sér inn á vettvang sem varðar nærsamfélagið og sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga.

Við erum í þessu togi og við verðum að virða það að sjálfsákvörðunarvald sveitarfélaganna er þarna fyrir og það gerir að verkum að þessi spurning gengur einfaldlega ekki upp.