151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi.

112. mál
[15:34]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi. Fyrsti flutningsmaður þessa þingmáls er hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir. Meðflutningsmenn eru aðrir hv. þingmenn Samfylkingarinnar og síðan eru fulltrúar frá þingflokki VG, Pírötum, Viðreisn og þingmanni utan flokka. Tillagan hljóðar svona:

Alþingi ályktar að fela ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að vinna áætlun um takmörkun á notkun pálmaolíu í allri framleiðslu á Íslandi og leggja fram frumvarp um bann við notkun hennar í lífdísil. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður sínar og leggi fram frumvarp til laga um bann við notkun pálmaolíu í lífdísil eigi síðar en í lok árs 2021.

Þingsályktunartillaga sambærilegs efnis var lögð fram á 149. og 150. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Ég vil geta þess hér að málið var afgreitt í sátt úr hv. atvinnuveganefnd í vor en náði ekki á dagskrá Alþingis. Þess vegna á ég von á því að vinnan í nefndinni muni ganga greiðlega og við fáum málið fljótlega aftur í síðari umr.

Með þingsályktunartillögu þessari vilja flutningsmenn stuðla að því að bannað verði að nota pálmaolíu í lífdísil á Íslandi. Regnskógar eru ruddir þegar pálmaolía er unnin, en það hefur ill áhrif á umhverfið og veldur margvíslegum skaða sem brýnt er að girða fyrir með banni. Greinargerðin með tillögunni er byggð á umfjöllun Rannveigar Magnúsdóttur vistfræðings. Í ljósi þeirra áhrifa sem framleiðsla pálmaolíu hefur haft á umhverfið hefur Evrópusambandið m.a. samþykkt reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2019/807 sem miðar að því að draga úr notkun óendurnýjanlegs lífefnaeldsneytis, þar á meðal pálmaolíu.

Olíupálmi er fljótvaxinn hitabeltispálmi og upprunninn í Vestur- og Suðvestur-Afríku. Úr ávöxtum þessa pálma er unnin pálmaolía. Einn hektari af olíupálma gefur af sér um fjögur tonn af pálma- og pálmakjarnaolíu. Þessar afurðir er að finna í mörgu sem fólk á Vesturlöndum, og í vaxandi mæli í Asíu, notar og kaupir á hverjum degi. Þar má nefna snyrtivörur, sápur, súkkulaði, brauð, kökur, kex, eldsneyti o.fl. Lönd eins og Indónesía og Malasía, sem framleiða langmest af pálmaolíu, hafa nú þegar fellt stóran hluta af regnskógum sínum, m.a. fyrir fjöldaframleiðslu á pálmaolíu, sem er ódýrasta jurtaolían á markaði. Eftirspurn eftir henni hefur aukist verulega undanfarna áratugi og til þess að anna henni er regnskógur ruddur í stórum stíl. Í dag er langstærstur hluti pálmaolíu á markaði ósjálfbær og valdur að eyðingu regnskóga. Talið er að hið minnsta sé búið að fella 18,7 milljónir hektara af regnskógi fyrir framleiðslu á pálmaolíu, aðallega í Indónesíu og Malasíu. Slíkt landflæmi jafnast á við tvisvar sinnum Ísland að stærð. Framleiðsla á pálmaolíu tvöfaldaðist á fyrsta áratug þessarar aldar og hefur að líkindum tvöfaldast enn á þeim áratug sem senn rennur sitt skeið. Þetta er að miklu leyti vegna aukinnar eftirspurnar í Asíu.

Regnskógar eru mjög frjósamir og búa yfir miklum líffræðilegum fjölbreytileika. Á einum hektara í Amason-frumskóginum hafa t.d. fundist fleiri en 230 tegundir trjáa. Þar að auki er skógur miklu meira en aðeins tré og því miður tapast einnig fjölmargar dýra- og smádýrategundir þegar skógar eru ruddir. Dýr þrífast ekki nema þau hafi skjól og heppilegt æti og fæðuvefurinn getur verið mjög flókinn í gömlum regnskógum. Sumar lífverur eru jafnvel háðar öðrum. Víxlfrjóvgun margra plöntutegunda verður ekki nema með hjálp ákveðinna skordýra, fugla eða spendýra og ef þau hverfa deyja plönturnar í kjölfarið. Dýr geta þurft stór svæði til að athafna sig og þrífast ekki í litlum afmörkuðum regnskógarleifum. Þetta er ástæða þess að margar regnskógartegundir eru í bráðri útrýmingarhættu. Regnskógar eru gríðarlega stórar kolefnisgeymslur og sumir regnskógar, einkum í Suðaustur-Asíu, vaxa í kolefnisríkum mýrum. Þegar skógarnir eru ruddir og brenndir aukast áhrif loftslagsbreytinga því að kolefni losnar út í andrúmsloftið þegar skógurinn sjálfur er brenndur og einnig þegar mýrin er ræst fram. Að auki kviknar oft í þessum mýrum og árið 2015, sem var mjög þurrt ár, var mikill hluti Suðaustur-Asíu hulinn menguðu mistri sem rekja mátti að miklu leyti til skógarelda í Indónesíu vegna pálmaolíuframleiðslu. Við það að breyta regnskógum í plantekrur eru í raun búin til nær líflaus landsvæði þar sem dýr eins og órangútanar eiga sér enga von. Talið er að ef haldið verður áfram að eyðileggja regnskóga Indónesíu á sama hraða gætu órangútanar orðið útdauðir í náttúrunni innan örfárra áratuga. Að auki hefur Amnesty International nýlega komið upp um hræðilegan aðbúnað fólks sem vinnur á pálmaolíuplantekrum þar sem börnum er þrælað út og konur veikjast við að úða skordýraeitri á skógarbotninn. Árið 2013 voru samtals framleiddar tæpar 60 milljónir tonna af pálmaolíu á heimsvísu, en þar af voru einungis 16,5% framleidd undir regnhlíf samtaka sem kalla sig Hringborð um sjálfbæra pálmaolíu.

Herra forseti. Þótt stærstur hluti þeirrar pálmaolíu sem framleidd er fari í matvörur og snyrtivörur hefur hún í auknum mæli verið notuð sem eldsneyti eða íblöndun í það. Því veldur aðallega loftslagsstefna Evrópusambandsins. Áætlað er að árið 2014 hafi evrópsk farartæki brennt meira en þremur milljónum tonna af pálmaolíu. Það var hér um bil þriðjungur af allri lífeldsneytisnotkun í Evrópusambandinu. Hefð hefur verið fyrir því að líta á lífeldsneyti sem kolefnishlutlausa vöru, en sú einföldun hefur í raun blekkt stjórnvöld til að trúa því að pálmaolía í lífeldsneyti sé betri fyrir loftslagið en jarðefnaeldsneyti. Því miður er raunin þveröfug. Aukin eftirspurn í Evrópu eftir lífeldsneyti hefur orsakað enn meiri framleiðslu á pálmaolíu í Malasíu og Indónesíu, og því fylgir aukin eyðing regnskóga, þurrkun á mólendi, minni líffræðilegur fjölbreytileiki og aukin losun gróðurhúsalofttegunda.

Lífdísill er framleiddur á þremur stöðum hér á landi og er þar nýtt tækifæri til að framleiða eins umhverfisvænan lífdísil og mögulegt er. Þannig er hægt að nýta fjölmargt annað en pálmaolíu, t.d. úrgangsmatarolíu, dýrafitu og repjuolíu, endurnýta metanól og mögulega verður í framtíðinni hægt að nýta þörunga. Þannig getur takmörkun á notkun pálmaolíu ýtt undir og stutt við íslenska framleiðslu.

Pálmaolía er notuð til matvælaframleiðslu á Íslandi, en töluvert hefur dregið úr notkun hennar á síðustu árum. Æskilegast væri að notkun pálmaolíu í matvæli væri alfarið hætt, því að auk þess að vera með hátt kolefnisspor er pálmaolía mettuð fita. Landlæknisembættið mælir með að skipt sé út hluta af mettaðri fitu fyrir ómettaðar fitusýrur, bæði fjölómettaðar og einómettaðar, en þannig má minnka áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum.

Herra forseti. Ég hef stiklað á stóru í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu, sem er ákaflega fróðleg. Eins og ég sagði áðan var svipuð tillaga afgreidd í þverpólitískri sátt í hv. atvinnuveganefnd. Ég vænti þess að hv. atvinnuveganefnd muni taka málið til afgreiðslu og koma því hratt og örugglega til síðari umræðu hér í þingsal og samþykktar.