151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

greiðara aðgengi að meðferðarúrræðum á sjúkrahúsinu Vogi.

50. mál
[15:44]
Horfa

Flm. (Sigurður Páll Jónsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um greiðara aðgengi að meðferðarúrræðum á Sjúkrahúsinu Vogi. Með mér á þessari tillögu eru allir þingmenn Miðflokksins og auk þess hv. þm. Ásmundur Friðriksson. Ég ætla að lesa hérna inntakið og greinargerðina og tala síðan út frá því á eftir.

Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem geri aðgerðaáætlun um að bæta aðgengi einstaklinga í fíknivanda að meðferðarúrræðum sem í boði eru á sjúkrahúsinu Vogi. Áætlunin verði gerð í nánu samstarfi við hagsmunaaðila. Starfshópurinn skili tillögum til ráðherra eigi síðar en í febrúar 2022. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins á vorþingi 2022.

Tillaga þessi var áður lögð fram á 150. löggjafarþingi (732. mál), en komst ekki til umræðu. Tillagan er mikilvægt skref í þá átt að efla heilbrigðisþjónustu og stuðla að bættu samfélagi og lífskjörum fyrir þá sem þarfnast innlagnar á sjúkrahúsið Vog.

Með þingsályktunartillögunni er lagt fyrir heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem kanni hvað þyrfti til og þá hversu mikið fjárframlag SÁÁ, rekstraraðili sjúkrahússins Vogs, meðferðarstöðvarinnar á Vík og göngudeildar SÁÁ, þyrfti ár hvert til þess að geta sinnt með fullnægjandi hætti meðferðarúrræðum á Vogi svo að hægt verði að stytta biðlista og auka aðgengi og þjónustu við einstaklinga í fíknivanda.

Sjúkrahúsið Vogur er sérhæfð stofnun sem hefur séð um afeitrun fíkla og meðferðir undanfarna áratugi með góðum árangri og er reynsla þeirra sem þar starfa yfirgripsmikil og hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. Á Vogi er veitt sérhæfð meðferð við fíknisjúkdómi sem byggist á læknisfræðilegum greiningum, afeitrun með fagfólki, lyfjameðferð og einstaklingshæfðri sálfélagslegri meðferð svo fátt eitt sé nefnt.

Árið 1997 var brugðist við vaxandi biðlista með áætlunargerð um hvernig mætti eyða biðlistum m.a. með því að byggja við sjúkrahúsið Vog. Áætlunin náði til ársins 2000 og það ár tókst að stytta biðlistana og þurrkuðust þeir út á tímabili út árið. Skortur var á rekstrarfé og starfsfólki fækkaði sem varð til þess að biðlistar lengdust aftur. Í svari frá ráðherra við fyrirspurn fyrsta flutningsmanns um biðlista á Vogi, á 150. löggjafarþingi, kemur fram að í mars árið 2020 voru 530 einstaklingar á biðlista eftir innlögn á Vogi og hefur biðlistinn haldist nokkuð stöðugt í þeim fjölda frá árinu 2014, í rúm sex ár. Biðtími er stuttur fyrir þá sem eru að leita sér meðferðar í fyrsta sinn og enginn fyrir unglinga. Iðulega eru einstaklingar á biðlista sem eru ekki að fara í meðferð í fyrsta sinn, það eru þeir sem hafa komið í meðferð áður og þurfa að fara aftar á biðlista. Um það snýst þessi vandi. Að meðaltali dvelur sjúklingur í um tíu daga, en rúm er fyrir 50 sjúklinga auk 11 rúma á ungmennadeild og tekið er á móti sjúklingum alla daga vikunnar.

Í greinargerð um þjónustu SÁÁ sem gefin var út á árinu 2020 kemur fram að árið 2019 voru 2.317 innlagnir á Vog hjá 1.624 einstaklingum sem gerir um það bil 1,4 innlagnir á hvern einstakling og álykta má út frá því að það komi til ítrekaðra innlagna hjá sumum. SÁÁ fær ár hvert ríkisframlag til rekstursins og samkvæmt fyrrnefndri greinargerð var heildarkostnaður við rekstur Vogs árið 2019 983 millj. kr. og ríkisframlag rúmar 796 millj. kr. Mismunurinn þarna á milli var þá á kostnað SÁÁ og hann hefur verið greiddur með sjálfsaflafé og þar hefur álfasalan spilað mjög sterkt inn í sem hefur ekki verið hægt að fara í eftir að Covid-faraldurinn reið yfir nema að takmörkuðu leyti rafrænt, en það hefur verið í mjög litlum mæli. Sjálfsaflafé félagsins hefur mikið rýrnað á þessu ári. Þetta er sem sagt miðað við 21.582 legudaga á ári.

Ljóst er að sú staða sem upp er komin, að meðaltími sem einstaklingar með neyslu- og fíknivanda þurfa að bíða eftir innlögn á Vog sé frá 20 dögum upp í rúmlega 120 daga, er hvorki til hagsbóta fyrir einstaklingana sjálfa né samfélagið í heild. Einstaklingar með neyslu- og fíknivanda hafa mikil áhrif á samfélagið og það er því ávinningur samfélagsins í heild að þeim sem vilja komast í meðferð verði veitt tækifæri til innlagnar þegar í stað ef þeir leita eftir því þar sem löng bið hefur oft reynst vera dýrkeypt. Það hefur margsinnis sýnt sig að greitt aðgengi að áfengis- og fíknimeðferð er besta leiðin fyrir einstaklinga í fíknivanda til að ná tökum á vandanum því fíknin fer ekki í manngreinarálit og heltekur heilu fjölskyldurnar. Nokkuð er um að einstaklingar þurfi fleiri en eina innlögn og langvarandi meðferð til að sigrast á fíkninni en til að auka megi líkur á bata þarf að tryggja gott aðgengi að úrræðum. Oftast eru þeir sem þurfa að bíða lengi eftir meðferð einmitt þeir sem kallaðir eru endurkomukarlar eða -konur sem eiga að baki eina eða fleiri meðferðir. Einhverjir láta lífið á meðan þeir bíða eftir að komast í meðferð.

Afskipti lögregluyfirvalda vegna afbrota, nytjastuldar og eignaspjalla má að einhverju leyti rekja til fólks sem hefur á þeim tíma verið undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Það má því segja að þjóðfélagið, löggæslan, heilbrigðiskerfið og félagsleg úrræði beri umtalsverðan kostnað af þeirri skaðsemi sem áfengi og vímuefni hafa á samfélagið. Kostnaður ríkisins er mun meiri við að hafa sjúkt fólk annaðhvort á stofnunum eða á vergangi en að hjálpa þeim sem eftir hjálpinni sækjast án tafar og stuðla þar með að fullri þátttöku þeirra í samfélaginu sem heilbrigðra einstaklinga.

Það er mat flutningsmanna að árangur af greiðu aðgengi að meðferðarúrræðum á Vogi verði til þess að auðveldara verði að leysa vandann sem blasir við í þessum efnum því það ætlar sér enginn að verða áfengis- eða fíkniefnasjúklingur.

Það er einu sinni þannig, eins og kom fram í greinargerðinni, að það ætlar sér enginn að verða fíkill eða áfengis- eða vímuefnasjúklingur. Sjúkdómurinn leggst misjafnlega hart á einstaklinga, það er mjög einstaklingsbundið hve veikt fólk verður. Þess vegna hefur reynslan sýnt, eins og líka kemur fram í greinargerðinni, að margir þurfa fleiri en eina meðferð til að komast í bata, til að komast frá fíkninni, til að geta farið að lifa lífinu allsgáðir. Það eru margir sem hafa náð mjög góðum árangri í lífinu eftir að hafa þurft að fara í fleiri en eina meðferð, jafnvel farið í tvær, þrjár meðferðir eða fleiri. Menn gera það ekkert að gamni sínu að sækja um að komast í meðferð.

Eins og einnig kom fram deyr fólk á meðan það bíður eftir að komast inn, veikasta fólkið. Það er af völdum sjúkdómsins sem leiðir af sér aðra undirliggjandi krankleika. Það er engin sanngirni í því, hafandi sagt þetta, að þeir sem eru búnir að koma einu sinni í meðferð þurfi að bíða lengur en hinir þegar horft er til þess hve misjafnlega sjúkdómurinn fer með fólk.

Það hefur margoft sýnt sig að þessir sjúkdómar leggjast misjafnlega á einstaklinga og fjölskyldur líka. Í Covid-faraldrinum hefur Vogur gert átak í forvarnaþjónustu, í sambandi við sálfræðiþjónustu, og það verður að segjast eins og er að það er afar gleðilegt að sjá að þeim var veitt aukið fjármagn, sem samsvarar einum starfsmanni, til að geta aukið við sálfræðiþjónustuna. Það er í þessu sambandi mest hugsað fyrir börn alkóhólista, til að fræða um sjúkdóminn, og eins fyrir foreldra sem eiga börn í vanda. Það er brýnt að aðstandendur sjúklingsins, þetta er fjölskyldusjúkdómur, geri sér grein fyrir sjúkdómnum og nái þannig að aðgreina einstaklinginn frá sjúkdómnum. Ég hef oft sagt að veikur alkóhólisti sé tvær persónur og það er bara einföld skýring í mínum huga.

Heimilisofbeldi hefur aukist mikið á þessum tímum Covid. Ég spurði dómsmálaráðherra út í það í sumar, á sumarþinginu í júní, og í svari ráðherrans kom fram að heimilisofbeldi hefði tekið mikið stökk upp á við eða aukist mikið síðustu þrjá mánuði, mars, apríl, maí. Má leiða líkur að því að það sé út af því að fólk er heima hjá sér og er áhyggjufullt og ég veit ekki hvað. Það kallar á meiri vandræði og örugglega er mikið af þessu út af óreglu. Inni á þessum heimilum, þar sem heimilisofbeldi er í gangi, eru innan um og saman við einstaklingar sem eru á biðlista eftir að komast inn á Vog. Það er auðvelt að leggja saman tvo og tvo ef þeir einstaklingar kæmust strax í meðferð. Ég gæti haldið lengi áfram að tala um þessi mál. Margir útigangsmenn og -konur eru á biðlistanum. Það má segja það með útigangsmenn að þau hafa örugglega ekki gert það að markmiði sínu sem ungt fólk að fara á götuna. Það er sjúkdómurinn sem hefur komið þeim þangað, þeim sem eru fíklar.

Hæstv. forseti. Ég óska þess að þetta mál fari til velferðarnefndar og þakka fyrir mig í bili.