154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegar kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:52]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur fyrir hennar flutning á þessari skýrslu um fátækt, stöðu fátækra á Íslandi. Ég heyri að hér er talað um hvað það kostar að lyfta fátæku fólki upp fyrir fátæktarmörk, eða a.m.k. upp að þeim vendipunkti. Þannig að það sem mér liggur á hjarta — þar sem ég heyri að ráðherrann er að tala um enn fleiri stýrihópa og að bíða í einhver tvö ár eftir að fá niðurstöðu úr þeim þá velti ég því óneitanlega fyrir mér hvort það sé í raun og veru ekkert á kortinu nú þegar til þess að koma með fjármagn inn í hóp fátæks fólk til að lyfta því upp úr fátæktinni.

Í fyrsta lagi velti ég því fyrir mér hversu lengi hæstv. forsætisráðherra telur eðlilegt að láta þetta fólk bíða eftir réttlætinu.

Í öðru lagi langar mig að minnast á það að Flokkur fólksins hefur ítrekað mælt fyrir frumvarpi til laga um staðgreiðslu við innborgun í lífeyrissjóði sem gæfi ríkissjóði 70 milljarða kr. á ári sem væri með glöðu geði hægt að setja nákvæmlega í fátækasta fólkið í landinu, öryrkja sem aðra, og útrýma þessum endalausu skerðingum og ótrúlegri skattlagningu á fátækt.

Að lokum langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig henni líst á frumvarp Flokks fólksins um 400.000 kr. lágmarksframfærslu skatta- og skerðingarlaust sem flokkurinn hefur jú þegar fjármagnað.