154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:58]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar til að byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessa skýrslu. Ég held að þetta sé ótrúlega gagnleg og flott skýrsla til að vinna út frá, gefur okkur rosalega góðar vísbendingar og hugmyndir um hvernig við getum unnið að þessum málaflokki áfram. En mig langaði kannski til að spyrja sérstaklega út í aldurshópinn 18–34 ára þar sem fátækt er að aukast. Þarna er ungt fólk á mjög viðkvæmu skeiði að stíga inn í samfélagið og ég hefði talið að það væri gríðarlega brýnt að grípa inn í strax til að sú þróun haldi ekki áfram og fátækt þessa hóps dýpki ekki enn þá meira.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvað hún leggur til að gera fyrir þennan hóp, hvort þetta séu aðgerðir sem á að fara í strax og hvað eigi að gera, út því að það er mjög ljóst tekið fram í skýrslunni að það er ekkert alveg vitað af hverju staða þessa hóps er þessi. Spurningin mín er: Hvernig grípum við inn í? (Forseti hringir.) Hvað gerum við í þessu ástandi?