154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:59]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Eins og ég nefndi hér áðan viljum við vinna áfram með einstaka hópa og ég nefndi hér og varð tíðrætt um sérstaklega einstæða foreldra, öryrkja og innflytjendur. En við þurfum auðvitað að skoða sérstaklega barnafjölskyldur, ekki bara einstæða foreldra, og við þurfum að skoða þennan hóp ungs fólks sem er fjallað um í skýrslunni, annars vegar þau sem eru í námi, þar sem þarf að rýna gögnin aðeins gögnin því það er ansi mismunandi staða hjá þeim hópi. Háskólanemum hefur fjölgað og það liggur ekki fyrir út frá gögnunum sem við höfum hversu margir námsmenn dvelja í foreldrahúsum, þannig að það getur auðvitað haft áhrif á lágtekjuhlutfallið. NEET-hópurinn, hópur ungs fólks sem er utan skóla og vinnu, er hópur sem er í sérstakri skoðun í mennta- og barnamálaráðuneytinu. Þar tel ég að aðgerða sé þörf. Það þarf að greina betur samsetningu þess hóps en ég held að þarna sé mikil þörf á brýnum aðgerðum. Ég kem að því í seinna andsvari.