154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:02]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir góða yfirferð, hrósa hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir að hafa haft forgöngu um það á sínum tíma að óskað var eftir þessari skýrslu og að sama skapi þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að hafa sett þá skýrslubeiðni í mjög góðan farveg í sínu ráðuneyti og séð til þess að unnið var mjög gott starf vegna þess að ég held að þessi skýrsla geti orðið okkur mjög mikilvægur leiðarvísir á næstu árum.

Í skýrslunni kemur vissulega fram að börnum sem búa á heimilum undir lágtekjumörkum hefur fækkað frá 2017. Hins vegar hefur lágtekjuhlutfallið almennt, sem er sá mælikvarði sem hér er lagður til grundvallar afstæðri fátækt, aukist lítillega. Fátækt í þessum skilningi, út frá þessum mælikvarða, hefur aukist lítillega frá 2016. Að sama skapi kemur fram að fátækt hafi dýpkað á þeim tíma frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Eru þetta henni vonbrigði? Hvað veldur þessu í hennar huga?