154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:26]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Mig langar að nefna tvo þætti sem hann gerði að umtalsefni, í fyrsta lagi hvað varðar þróunina á síðustu árum. Það sem þarf að greina í framhaldinu er m.a. hvaða áhrif breytt íbúasamsetning, fjölgun innflytjenda sem hefðbundið eiga litlar eignir og eru að uppistöðu til og oftast í lágtekjustörfum, hefur haft á þessa þróun sem hv. þingmaður nefnir. Mig langaði aðeins að fá hv. þingmann til að reifa það aðeins betur, því að ég held að við þurfum líka að horfa á það að þótt stjórnvöld hafi verið að bæta í tilfærslukerfin, eins og ég fór yfir í minni ræðu, þurfum við mögulega að huga sérstaklega að ólíkum hópum í því.

Hitt er það sem varðar fátækt barna. Ég nefndi hér áðan skólamáltíðir og mig langar líka að nefna þá stöðu sem virðist því miður vera uppi, að þrátt fyrir að fæðingarorlof hafi verið lengt úr níu mánuðum í tólf, sem var mikilvægt skref, erum við í þeirri stöðu að það virðist jafnvel vera erfiðara að koma börnum inn á leikskóla en þegar ég var sjálf í framboði fyrir Reykjavíkurlistann fyrir mjög mörgum árum, 20 árum eða svo. Það finnst mér vera áhyggjuefni og ég velti fyrir mér hvaða leiðir við sjáum í því, hvort við viljum fara í að brúa þetta umönnunarbil með því að eiga samtal við sveitarfélögin eða viljum við lengja fæðingarorlof enn frekar og hve mikið. Það verður a.m.k. að segjast eins og er að þessi staða í leikskólamálum er auðvitað óviðunandi. Við getum ekki lengt fæðingarorlof út í hið óendanlega. Það skiptir máli bæði fyrir fjölskyldurnar og samfélagið að fólk geti aktíft tekið þátt á vinnumarkaði. Hvaða lausnir sér hv. þingmaður á umönnunarbilinu, sem vissulega hefur áhrif á fátækt barna?