154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:37]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja. Að sérstaka uppbótin hafi verið sérstakur skaðvaldur, þessi aðgerð sem hífði tekjulægsta fólkið sem reiðir sig á almannatryggingar upp fyrir lægstu laun í landinu? Það er það sem sérstaka uppbótin gerði, sem Flokkur fólksins lítur á sem sérstakan skaðvald. Með aðgerðum sem var ráðist í eftir hrun var t.d. tryggt að lágtekjuhlutfall hjá eldra fólki og öryrkjum hríðlækkaði eftir hrun. Við erum að tala hér um fátækt og ójöfnuð og skýrslan sem hér hefur verið farið yfir staðfestir þessa þróun.

Hvað ætlar Samfylkingin að gera? Ég skal a.m.k. segja hv. þingmanni það að þau í Flokki fólksins fá ekki stuðning Samfylkingarinnar við hugmyndir um að grafa undan fjármögnun velferðarkerfisins með stórtækum skattalækkunum og grafa þannig undan grundvellinum að því að reka sterka almannaþjónustu í landinu. Þau fá heldur ekki stuðning við hugmyndir um að stórauka jaðarskattbyrði hjá millitekjufólki í landinu með því að láta persónuafsláttinn fjara út. Það kemur ekki til greina og þau fá ekki stuðning við það frá okkur. Þau fá heldur ekki stuðning frá okkur við að láta yngra fólk sem er að greiða í lífeyrissjóði borga hærri skatta fyrr á lífsleiðinni. Það kemur ekki til greina og það er ekki leið til þess að draga úr fátækt á Íslandi. Annars hvet ég bara hv. þingmann til að fylgjast með því sem við höfum fram að færa en ég get alveg lofað honum því að Flokkur fólksins fær ekki stuðning Samfylkingarinnar við svona mál.