154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:59]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni Bryndísi Haraldsdóttur fyrir hennar ræðu. Ég get ekki annað en verið sammála henni. Auðvitað eigum við öll að hafa jöfn tækifæri til að lifa mannsæmandi lífi á Íslandi. Hún kom inn á skerðingar í sambandi við fæðingarorlof. Mig langar að spyrja hana um skerðingar í almannatryggingakerfinu yfir höfuð. Þessar gígantísku skerðingar eru ekki bara innan almannatryggingakerfisins heldur teygja sig yfir í félagsmálakerfið. Það er, myndi ég segja, það versta í þessu kerfi og skapar mestu fátæktina vegna þess að þarna er undir hópur sem getur ekki varið sig gagnvart þessu á neinn hátt. Þau lenda á vegg á hverju einasta ári. Þetta kerfi er ofboðslega mannskemmandi. Er þingmaðurinn ekki sammála mér í því að við þurfum að taka þetta kerfi og gjörsamlega gjörbreyta því?

Ef við tökum konur sem dæmi sem lifa við fátækt, þá fara þær yfirleitt mjög illa út úr því að vera í fátækt vegna þess að þær hafa börnin sín í fyrirrúmi. Heilsu þeirra hrakar mikið. Þetta segir okkur að við verðum og eigum að taka á þessum vanda, á geðheilbrigðismálum og öllum þessum pakka. Ef við uppreiknum almannatryggingalífeyri og persónuafslátt samkvæmt launavísitölu, miðað við árið 1988 þegar staðgreiðsla var tekin upp, þá væri í dag verið að borga út meira en 400.000 kr. eftir skatt. Það væri þá lágmarksgreiðsla. Ég spyr hv. þingmann: Er hann ekki sammála mér í því að ef við hefðum farið og gert þetta myndi það losa marga úr fátæktargildru eins og hún er í dag?